Fangelsisvist fyrir fjárdrátt: Bókarinn trúði vart sínum augum

alver 14082014Bókari starfsmannafélags Alcoa Fjarðaáls, Sóma, varð þess áskynja við gerð ársreiknings að ekki væri allt með felldu við fjárreiður fyrrverandi gjaldkera. Reikningur fyrir laseraðgerð varð til þess að farið var að skoða málin. Gjaldkerinn var í gær dæmdur til fangelsisvistar fyrir að nota peninga úr sjóðum félagsins til eigin nota og umboðssvik þar sem hann ráðstafaði fjármunum félagsins án heimildar stjórnar.

Brotin áttu sér stað á níu mánaða tímabili sem lauk vorið 2014. Ákæran var í sextán liðum og hljóðaði upp á alls sextán milljónir króna. Í fyrsta lagi var um að ræða fjárdrátt, 28 millifærslur upp á fimm milljónir króna til eigin nota, 7 millifærslur upp á 220 þúsund krónur á bensínkort mannsins og laseraugnaðgerð upp á 315 þúsund.

Að auki var peningagjöf til vinkonu upp á 200.000 krónur og kaup á varahlutum í bifreið. Fyrrnefnda ákæruliði játaði gjaldkerinn fyrrverandi.

Hann neitaði hins vegar tíu ákæruliðum um umboðssvik upp á 2,2 milljónir króna en hann ráðstafaði fé án samþykkis annarra stjórnarmanna. Af þeim var hann sakfelldur í átta ákæruliðum.

Ekki þörf á þjálfara í utandeildina

Þar er hann meðal annars sakfelldur fyrir að hafa notað sjóði Sóma til að greiða fyrir sig þjálfaranámskeið hjá Knattspyrnusambandi Íslands. Það námskeið sótti hann því þörf hefði verið á þjálfara fyrir lið frá Fjarðaáli sem keppti í utandeild. Önnur vitni úr stjórn könnuðust ekki við umræðu á að þörf væri á þjálfara fyrir utandeildina.

Þá var hann dæmdur fyrir að samþykka útgjöld upp á hálfa milljón króna fyrir starfsmannaferð kranaverkstæðis. Það mál var ekki tekið fyrir í stjórn en gjaldkerinn taldi sig samt hafa heimild til að veita styrkinn.

Tölvur í skólana

Stærsti staki liðurinn í umboðssvikunum voru kaup á níu Apple-tölvum upp á tæpa eina milljón króna en tölvurnar áttu að gefa grunnskólum í Fjarðabyggð. Gjaldkerinn lagði kaupin til á þriggja manna stjórnarfundi þar sem hann segir þau hafa verið samþykkt með tveimur atkvæðum gegn einu.

Ekkert tilboð lá fyrir fundinum en gjaldkerinn aflaði sjálfur tilboðs eftir fundinn. Hann keypti síðan tölvurnar án frekara samráðs við stjórnarmenn.

Aðrir stjórnarmenn könnuðust við að málið hefði verið rætt en ekki samþykkt og reyndar kolfellt á öðrum fundi, sem ákærði hefði setið. Þegar tölvurnar bárust sögðust aðrir stjórnarmenn hafa haldið að fyrir þeim hefði fengist styrkur frá Fjarðaáli.

Einnig keypti hann tölvu, prentara og síma til að nota í störfum sínum sem gjaldkeri að verðmæti 270 þúsund króna.

Færslur sem stungu í stúf

Að lokum var hann sakfelldur fyrir að endurgreiða kostnað við starfsmannaferð sem annað fyrirtæki lagði út fyrir upp á 240 þúsund krónur. Á reikningi sem hann bjó til fyrir bókhaldið stóð „matsvinna" og gaf þá skýringu að þetta hefði verið „matur" og forsvarsmaður fyrirtækisins lagt í „þessa vinnu fyrir okkur að borga þetta."

Við gerð ársreiknings fór bókara félagsins að gruna ekki væri allt með felldu. Hann gerði athugasemdir við að reikninga vantaði. Þegar beðið var um þá kom gjaldkerinn með reikninga sem hann bjó til sjálfur en í nafni fyrirtækjanna. Færslur eins og með augnaðferðina „stungu í stúf" að sögn bókarans sem „trúði vart eigin augum." Gjaldkerinn sagðist ekki hafa áttað sig á að hann væri að gera neitt rangt með að búa til reikningana.

Ekki að safna digrum sjóðum

Fyrir dómi viðurkenndi gjaldkerinn að hafa verið „í djúpri holu, andlega, líkamlega og fjárhagslega," og glímt við bæði áfengis- og spilafíkn. Hann lýsti sig viljugan til að borga til baka skuldir sínar, jafnvel þótt hann væri ekki borgunarmaður fyrir þeim í dag.

Hann sagðist ekki hafa haft reynslu af stjórnarstörfum en talið sér heimilt að ráðstafa fé án aðkomu stjórnar. Þar vísaði hann til orð félagsmanns á aðalfundi sem sagði það ekki verk félagsins að safna digrum sjóðum.

Aðrir stjórnarmenn báru hins vegar að það hefði verið rætt að hlutverk gjaldkerans væri aðeins að greiða reikninga að höfðu samráði við formann og á hreinu væri að hann tæki ekki einhliða ákvörðun um ráðstöfun fjármuna.

Umsýsla félagsins lítur ekki vel út í dóminum. Aðeins fannst ein fundargerð frá tímabilinu og virtust hinar hafa tapast þegar þurrkað var út úr tölvu formannsins við starfslok hans hjá fyrirtækinu. Þá mundu fæstir stjórnarmanna hverjir voru aðal eða varamenn.

Ekki sérlega beittur ásetningur

Gjaldkerinn var sýknaður af tveimur ákæruliðum sem vörðuðu umboðssvik um kaup á fótboltavörum og sjúkratösku fyrir fótboltaliðið. Einn stjórnarmaður sagði við skýrslutöku lögreglu að þau hefðu verið samþykkt. Aðrir stjórnarmenn mundu ekki ákvörðunina þar um fyrir dómi.

Í niðurstöðu dómsins segir að gjaldkerinn hafi misnotað trúnaðarstöðu sína sem stjórnarmaður og gjaldkeri. Ásetningurinn hafi ekki verið sérstaklega einbeittur, til dæmis með því að falsa reikninga heldur hefði hann gert þá að beiðni dómara.

Játningar hans þóttu skýrar og það talið honum til tekna að hafa reynt að bæta fyrir brotin með því að afsala sér lausafé, til að mynda bifreið. Auk þess hefði góður ásetningur legið að baki tölvukaupunum fyrir skólana.

Að öðru leyti þótti hann ekki eiga sér málsbætur og var því dæmdur til átta mánaða fangelsisvistar en þar af eru 6 mánuðir skilorðsbundnir. Hann þarf einnig að greiða 1,3 milljónir í sakarkostnað.

Starfsmannafélagið höfðaði einkamál á hendur gjaldkeranum og krafðist tæpra sex milljóna í skaðabætur. Dómurinn dæmdi hann til að greiða tæpar 5,8 milljónir auk vaxta og 400.000 í málskostnað.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.