„Gerðum okkur enga grein fyrir því að við gætum staðið uppi sem sigurvegarar"
Drekarnir, lið Vopnafjarðarskóla sigraði í tækni- og hönnunarkeppni grunnskólanemenda, First Lego League, sem haldin var í Háskólabíó um helgina.Með sigrinum vann liðið sér þátttökurétt í alþjóðlegri keppni sem haldin verður á næsta ári. Alls tóku um 200 börn og unglingar þátt í keppninni, úr 20 liðum allsstaðar af landinu.
Þema keppninnar í ár var sorp og var það hlutverk keppenda að smíða og forrita vélmenni eftir verkfræðilegum aðferðum til að leysa þrautir því tengdu – sem og að skrá niður ferli verkefnisins og kynna fyrir áhorfendum og dómurum rannsóknir sínar og lausnir.
Vopnafjarðarskóli var að taka þátt í keppninni í fyrsta skipti og Aðalbjörn Birgisson, skólastjóri, sagði að sigurinn hefði komið öllum skemmtilega á óvart, en það voru nemendur sjöunda bekkjar sem voru fulltrúar skólans í ár.
„Í rauninni var þetta miklu meira mál en við áttuðum okkur á, auk þess sem við héldum að keppnin færi fram eftir áramót. Við ákváðum að taka út náttúrufræðikennslu þennan undirbúningstíma og var það náttúrufræðikennarinn, Kristín Jónsdóttir, sem leiddi hópinn áfram.
Við ætluðum okkur nú bara að vera með, svona í fyrsta skipti sem við tækjum þátt – en þetta er sérlega skemmtileg niðurstaða, svona sérstaklega í ljósi þess að nemendur og aðrir hafa lagt á sig mikla vinnu við undirbúning keppninnar. Við gerðum okkur enga grein fyrir því að við gætum staðið uppi sem sigurvegarar, það var bara skemmtilegur bónus."
Aðalbjörn telur keppnina og undirbúning hennar hafa mikla þýðingu fyrir nemendur. „Þetta breikkar þekkingu þeirra og kunnáttu á allan hátt. Það er mikill lærdómur fólginn í því að forrita vélmenni, vinna myndband og kynna rannsóknina og niðurstöður hennar."
Ljósm: Kristinn Ingvarsson