Líneik Anna: Þurfum meira en að eyða dagatölunum af dekkjaverkstæðunum

lineik anna nov15Þingkonan Líneik Anna Sævarsdóttir segist hafa þurfti tíma til að átta sig á nýjum baráttuaðferðum ungra kvenna fyrir réttindum sínum. Þótt ýmislegt hafi áunnist eru enn múrar sem rífa þurfi niður.

„Ég dáist að unga fólkinu sem barist hefur gegn druslustimplinum. Það tók mig tíma að átta mig á baráttunni en hún hefur nú runnið upp fyrir mér," sagði Líneik Anna á málþingi sem sveitarfélagið Fljótsdalshérað hélt nýverið í tilefni 100 ára kosningaréttar kvenna.

Baráttan gegn druslustimpluninni hefur meðal annars falist í berbrjóstaátakinu #FreeTheNipple og druslugöngunni. Baráttan hefur meðal annars falist í að skila skömminni sem þolendur kynferðislegs ofbeldis eða áreitni hafa setið upp með aftur til gerendanna og að miðla því að kynfrelsi kvenna sé ekki skömm.

„Við getum öll fundið einelti í formi druslustimplunar. Mér brá þegar mér var bent á hana. Mikið svakalega getum við verið blind."

Hjálpa reglurnar?

Líneik, sem var áður skólastjóri á Fáskrúðsfirði, benti meðal annars á reglur skóla um klæðaburð á skólaböll.

„Ég hugsa að boð og um bönnuð ýti undir drusluskömmina. Er hægt að setja viðmið um klæðnað án druslustimplunar?"

Líneik ræddi einnig áhrif dreifinga nektarmynda á netinu. Hún staðreyndina að krakkarnir tækju á sér nektarmyndir og þær færu í dreifingu. Sá sem væri á slíkri mynd í dreifingu þyrfti stuðning fremur en skammir. Myndatökunni yrði vart breytt.

Netdreifingarnar hafa líka breytt fleiru. „Það er ekki valkostur að vera berbrjósta í sólbaði eftir að farið var að nota myndbirtingar á netinu til niðurlægingar en það þótti sjálfsagt á mínum tíma."

Ýmislegt annað er líka að breytast, sumt til batnaðar. „Það er farið að ræða birtingarmyndir kynferðislegs ofbeldis í fjölmiðlum og við heimilisborðið. Það hefði ekki verið gert þegar ég var unglingur.

Afar kynskiptur vinnumarkaður

Í framsögu sinni ræddi Líneik Anna bæði stöðu kvenna í stjórnmálum og á vinnumarkaði. Hún sagði kannanir sýna að jafnrétti skipti ekki aðeins máli kvenna vegna skilaði það sér einnig í bættu efnahag og hagsæld ríkja.

Áhyggjuefni sé hins vegar hve kynskiptur íslenski vinnumarkaðurinn sé. Karlar sé með um mánuð aukalega í laun og náms- og starfsval sé enn mjög kynskipt. Enn væru dæmi um að fyrirtæki veldu frekar karla en konur sem þau teldu þurfa frekar þurfa að sinna fjölskyldunni.

Þá hafi konur sótt inn í hefðbundnar karlagreinar en karlar ekki í kvennagrienar. „Ég hef áhyggjur af því að synir mínir séu með fábreyttara starfsval fyrir sig en dætur mínar. Karlar sem koma inn á kvennavinnustaði glíma ekki síður við fordóma heldur en konur sem komu inn á karlavinnustaði."

Þarna þarf viðhorfsbreytingu að hennar mati. „Ég hélt að það dygði að koma dagatölunum út af dekkjaverkstæðunum en það var ekki."

Karlarnir sýnilegri á vettvangi sveitarstjórnamálanna

Líneik settist á þing vorið 2013 en byrjaði stjórnmálaferilinn í sveitastjórn Búðarhrepps 1998. Hún sagðist þakklát þeim konum sem rutt hefðu brautina. Þær sem á eftir hefðu komið tækju ákveðnum hlutum sem sjálfsögðum.

Hún nefndi sem dæmi að hafa fengið sumarbústað til að geta gefið tvíburunum sínum brjóst á meðan hún sótti þing austfirskra sveitarfélaga og heilsársskóla á Hvanneyri þegar fyrsta barnið hennar hóf skólagöngu.

Hún nefndi hins vegar ójafnt hlutfall á ráðstefnum í tengslum við sveitarstjórnarmál. Karlar séu þar í meirihluta þótt þeir séu ekki það mikið fleiri í sveitarstjórnunum.

Líneik velti því upp að konur sinntu frekar störfum sem krefðust viðveru. Ef þær minnki starfshlutfallið þá bitni það á heimilinu. „Kannski er það skýringin fyrir að þær stoppa styttra í sveitastjórnunum. Þær vilja hvorki leggja fjarvistirnar á heimilislífið eða vinnustaðinn."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.