Viðræðum bæjarstarfsmanna við sveitarfélög slitið: Strandar á launaliðum
Viðræðum samninganefndar bæjarstarfsmanna innan BSBR, sem Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi (FOSA) er aðili að, og samninganefndar sveitarfélaganna var í síðustu viku vísað til ríkissáttasemjara. Atkvæðagreiðsla um nýjan samning við ríkið er í gangi.Fyrsti fundurinn hjá sáttasemjara var í morgun. Hann var fyrst til upplýsingar en annar fundur hefur verið boðaður eftir viku.
Ragnar Sigurðsson, formaður FOSA, segir ágreininginn felast í launaliðunum. Vonast var til að hægt yrði að semja við sveitarfélöginn þegar samningur við ríkið lá fyrir en það hafi ekki gengið eftir.
„Við áttum von að samningarnir við sveitarfélögin myndu ganga hratt eftir að SFR samdi og skrifað var undir SALEK samkomulagið en það ekki ekki eftir.
Mér fannst við vera nálgast hvert annað í upphafi vikunnar en því miður gekk það ekki betur en þetta," sagði hann í samtali við Austurfrétt.
Eftir að viðræðurnar höfðu verið strand í þrjá daga var þeim slitið. Samningarnir hafa nú verið lausir í hálft ár.
„Við höfðum slegið af okkar kröfum til að hægt yrði klára málið fyrr og starfsfólk fengi borgað út eftir nýju samningunum 1. desember en þetta gekk mjög hægt og að lokum ekki annað en slíta viðræðunum og vísa þeim til sáttasemjara."
Fyrir sléttri viku voru undirritaðir nýir samningar við ríkissjóð sem gilda fram til ársins 2019. Við gildistöku samningsins hækka laun um 25.000 kr. eða að lágmarki 7,7% skv. launatöflu samningsins og gildir sú hækkun frá 1. maí síðastliðnum.
Þann 1. júní 2016 hækka laun um 6,5% og þann 1. júní 2017 tekur við ný launatafla þar sem hverjum starfsmanni skal tryggð 4,5% hækkun að lágmarki.
Þann 1. júní 2018 hækka laun samkvæmt samningnum um 3% og 1. febrúar 2019 verður sérstök 55 þúsund kr. eingreiðsla sem greiðist hverjum starfsmanni miðað við fullt starf og sem er við störf í desember 2018 og janúar 2019.
Atkvæðagreiðsla er hafin og mun niðurstaða hennar liggja fyrir seinni part miðvikudags.