Lögreglustöð í reglugerð en ekki fjárheimildum
Samkvæmt nýrri reglugerð um lögregluumdæmi landsins er gert ráð fyrir lögreglustöð á Seyðisfirði. Hún hefur hins vegar ekki verið þar í sjö ár og fjárheimildir lögreglustjórans á Austurlandi gera ekki ráð fyrir því.Þetta er meðal þess sem fram kemur í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, þingmanns vinstri grænna í Norðausturkjördæmi um löggæslumál á Seyðisfirði.
Eins og frægt er orðið var lögreglustöðinni þar lokað á árunum 2007-8 en í staðinn opnuð þar Vínbúð og orlofsíbúð ÁTVR er þar sem áður voru fangaklefar.
Lögreglumenn fara hins vegar í reglulegar eftirlitsferðir á Seyðisfjörð og í kringum komur og brottfarir Norrænu hafa 2-3 lögreglumenn þar viðveru.
Frekari spurningum um mannaflaþörf og eflingu löggæslu á Seyðisfirði vísaði ráðherrann til vinnu við löggæsluáætlun sem nú stendur yfir.