„Þátttaka starfsmanna og stjórnenda verður algert lykilatriði"
Síldarvinnslan hyggst fara af stað með átak í öryggismálum en slysatíðni í fiskvinnslu á Íslandi er áhyggjuefni og vill Síldarvinnslan sýna gott fordæmi og setja öryggismál starfsmanna fyrirtækisins á oddinn.„Við viljum búa til heildstætt og lifandi öryggisskerfi sem verður hluti af daglegri rútínu starfsfólks. Þessi mál eru þau fyrstu sem við eigum að ræða á hverjum degi en allir eiga að upplifa sig örugga í vinnunni," segir Hákon Ernuson, starfsmannastjóri SVN.
Þeir Sigurður Ólafsson, ráðgjafi hjá Gagnráðum ehf. og fyrrverandi fræðslustjóri Fjarðaáls, og Ásgrímur Ásgrímsson, öryggisstjóri hjá Launafli, munu leiða vinnuna en báðir hafa þeir mikla reynslu af öryggismálum.
„Vissulega höfum við fyrirmyndir eins og Alcoa Fjarðaál og Sigurður og Ásgrímur koma með mikla reynslu þaðan. Við ætlum þó að gera þetta að okkar og hafa einfaldleikann að leiðarljósi þó svo við nýtum okkur þekktar og góðar aðferðir. Að sama skapi viljum við ná árangri og ef við þurfum að kafa djúpt, þá gerum við það."
Vinnan mun hefjast í fiskiðjuverinu í Neskaupstað en svo fylgja aðrar starfsstöðvar í kjölfarið. Gerðar verða nýjar áhættugreiningar og öll vinnubrögð á sviði öryggismála verða endurskoðuð frá grunni.
„Umræddu átaksverkefni er meðal annars ætlað að efla hugsun um öryggismál og skerpa á þeim reglum sem gilda eiga á sviði málaflokksins frá degi til dags. Mikilvægt er að allir starfsmenn tileinki sér þær öryggisreglur sem fara á eftir og þær verði eðlilegur og sjálfsagður hluti af hinu daglega starfi, en þátttaka starfsmanna og stjórnenda verður algert lykilatriði og eru þeir hvattir til að taka þátt í vinnunni með opnum huga."
Aðspurður af hverju þessi tímapunktur hafi verið ákveðinn segir Hákon:
„Það er svosem engin ein ástæða. Við erum með stjórnendafund á milli jóla og nýárs þar sem öryggismálin eru okkur alltaf ofarlega í huga. Sigurður tók einnig starfsmannaviðtöl fyrir okkur en þar var rauði þráðurinn sá að starfsfólki þótti mega gera betur á sviði öryggismála. Það klingdi ákveðnum bjöllum hjá okkur og ákváðum við því að hjóla í þessi mál í stað þess að velta þessu fyrir okkur lengur. Við erum í mjög góðu standi í fiskimjölsverksmiðjunni hér í Neskaupstað og á skipunum, en megum gera betur á öðrum starfsstöðvum."
Ásgrímur Ásgrímsson og Sigurður Ólafsson. Ljósm: Hákon Ernuson.