Rúmlega fjórðungur íbúa mætti á fundinn
Mikil jákvæðni og samheldni einkenndi íbúafund sem haldinn var á Breiðdalsvík á mánudaginn.Rúmlega fjórðungur íbúa Breiðdalshrepps mætti fundinn sem haldinn var í grunnskóla staðarins. Fundurinn var haldinn sem hluti verkefnisins „Breiðdælingar móta framtíðina" en það er hluti landsverkefnis Byggðastofnunar „Brothættar byggðir".
Mikil jákvæðni og samheldni einkenndi fundinn. Bjarni Kr. Grímsson verkefnisstjóri fór yfir og kynnti drög að markmiðum og framtíðarsýn fyrir sveitarfélagið sem byggir á skilaboðum íbúafundar frá árinu 2013.
Efnið var síðan rætt í vinnuhópum og komu fundarmenn með sitt álit og viðbætur. Ekki er þó settur lokapunktur heldur mun vinnan halda áfram hjá verkefnisstjórn og verkefnisstjóra. Eru íbúar hvattir til að taka þátt í að móta frekar þessi markmið og stefnu sem fjallað var um á fundinum.
Á fundinum var eftirfarandi framtíðarsýn sett fram:
Í Breiðdal ríki stöðugleiki og fjölbreytni í atvinnulífi. Sveitarfélagið sé eftirsótt af ferðamönnum og til búsetu vegna náttúrunnar. Breiðdalur verði kyrrlát og fögur byggð sem veitir öryggi, vellíðan og góða þjónustu.
Þetta er stutt með þremur meginmarkmiðum:
- Skapa áhugaverðan og spennandi stað sem ástæða er til að sækja heim.
- Tryggja stoðir sjávarútvegs og landbúnaðar.
- Vekja áhuga á og vakta mannlífið og umhverfið.
Þessu til viðbótar eru undirmarkmið. Sjá nánar hér.
Íbúar sem hafa áhuga á að vinna að einhverju framangreindra markmiða eða vilja koma með ábendingar geta sett sig í samband við Bjarna sem er með aðsetur á skrifstofu Breiðdalshrepps að Selnesi 25 á Breiðdalsvík. Netfangið er This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og símanúmer er 470-3808.
Í lok fundarins afhenti Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri Byggðastofnunar, styrki úr verkefninu að fjárhæð 7 milljónir króna. Alls bárust 11 umsóknir og eftirtalin verkefni hlutu styrki:
- Markaðskynning - kr. 2.600.000.
- Flygilvinir í Breiðdal - kr. 900.000.
- Lundasetur Íslands - kr. 500.000.
- Hið austfirzka bruggfjelag - kr. 500.000.
- Menningardagur 2015 - kr. 500.000.
- Matvælavinnsla beint frá býli - kr. 500.000.
- Breiðdalssetur - kr. 500.000.
- Heimasíðugerð Breiðdalshrepps - kr. 500.000.
- Samverur á Hótel Bláfelli - kr. 500.000.