Mótmæla breytingum Landsbankans
Bæjarráð Seyðisfjarðarkaupstaðar telur breytingar á útibúi bankans á Seyðisfirði ekki í samræmi við yfirlýsta stefnu bankans.Bankinn tilkynnti í vikunni að til standi að flytja afgreiðsluna í húsnæði sýslumannsins, stytta opnunartíma um hálftíma á dag og hætta lokun fyrir hádegi á fimmtudögum auk þess sem starfsmönnum verði fækkað úr þremur í einn.
Í ályktun bæjarráðs segir að með ákvörðuninni fækki störfum ríkisins, sem á bankann, á Seyðisfirði. Það sé ekki í samræmi við stefnu stjórnvalda.
Ráðið treystir því að fjármálaþjónusta- og ráðgjöf bankans haldist áfram óbreytt á staðnum í samræmi við lýsingu á starfsemi í útibúum hans.
Þótt gerðar séu kröfur um hagkvæmni í rekstri bankans og þá staðreynd að bankaviðskipti séu nær alfarið orðin rafræn vísar ráðið til samfélagslegrar ábyrgðar bankans, nýlegra afkomutalna, sterkrar stöðu hans og eignarhaldsins.
Ráðið hvetur því stjórnendur bankans til að huga að leiðum til eflingar starfseminnar á Seyðisfirði.