"Þetta kom okkur skemmtilega á óvart"

mjoeyri10Ferðaþjónustan á Mjóeyri hlaut viðurkenningu Ferðaþjónustu bænda sem framúrskarandi ferðaþjónustubær á uppskeruhátíð samtakanna.

Þau Sævar Guðjónsson og Berglind Ingvarsdóttir hafa byggt upp og rekið ferðaþjónustuna á Mjóeyri frá árinu 2004.

Viðurkenningin er veitt fyrir einstaka frammistöðu á árinu og byggist matið á umsögnum gesta og þeim gæðum sem staðurinn stendur fyrir að mati skrifstofu Ferðaþjónustu bænda – Bændaferða hf.

Í umsögn Ferðaþjónustu bænda vegna verðlaunanna segir að það séu forréttindi að búa á stað og reka ferðaþjónustu á stað eins og Mjóeyri, staðsett úti á tanga og umvafið tignarlegum fjöllum, þótt það sé ekki sjálfgefið að vel takist til með uppbyggingu slíkrar starfsemi.

Einnig að Berglind og Sævar hafi byrjað smátt en hafi smám saman bætt við gistirýmum og hafi jafnframt lagt áherslu á fjölbreytta náttúrutengda afþreyingu og einstakan veitingastað, Randolfshús.

„Á jaðri þéttbýlisins hafa þau sýnt að þau eru fyrirmyndarferðaþjónustubændur enda ljóst að það sem þau taka sér fyrir hendur gera þau vel. Þau eru hugmyndarík og sem dæmi um það er hinn einstaki heiti pottur sem hefur verið komið fyrir í gömlum báti. Það er einmitt þessi hugkvæmni, virðing fyrir sögunni og framtakssemi sem gerir þennan stað einstakan."


„Fyrst og fremst er þetta klapp á bakið"

Sævar segir þau hjónin vitanlega vera stolt af því að Mjóeyri hafi verið kosin sem framúrskarandi ferðaþjónustuaðili.

„Fyrst og fremst er þetta klapp á bakið og staðfesting á því að það sem við höldum að við höfum verið að gera rétt sé rétt," segir Sævar Guðjónsson, ferðaþjónustubóndi á Mjóeyri.

„Við vorum aldrei í neinum samtökum og það var ekki fyrr en við tókum þátt í verkefni á vegum Íslandsstofu sem nefnist Spegillinn að okkur var eindregið ráðlagt að sækja um aðild að Ferðaþjónustu bænda.

Satt best að segja hélt ég að það væri eitthvað óttalega gamaldags, að þeir sem væru í Ferðaþjónustu bænda myndu bara henda fólki í herbergi þar sem unglingurinn væri farinn að heiman, en svo er aldeilis ekki. Innan þeirra raða eru allar gerðir af ferðaþjónustuaðilum, þeir veita frábæra þjónustu og eru með virkt gæða- og umhverfiskerfi," segir Sævar.

Sævar segir það alls ekki hafa verið sjálfgefið að komast á lista hjá Ferðaþjónustu bænda, bæði vegna þess Mjóeyri er innan bæjarmarka á Eskifirði og ekki lögbýli, sem og vegna annarra hluta í þeirra gæðakerfi. „Við brugðumst við þeim athugasemdum og löguðum það sem þurfti að laga."

Nú tveim árum síðar hlutu þau Sævar og Berglind verðlaun sem framúrskarandi fyrirtæki í ferðaþjónustu. „Þetta kom okkur skemmtilega á óvart, okkur datt þetta ekki í hug þar sem svo margir eru að gera góða hluti um allt land," segir Sævar.

mjoeyri1mjoeyri2mjoeyri10

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.