13 verkefni björgunarsveita: Þurfti að festa bát á Vopnafirði

rutubjorgun 09102013 nikkibraga 2 webÞrettán verkefni voru skráð á austfirskar björgunarsveitir í gær og nótt. Á Vopnafirði þurfti björgunarsveitin að hemja bát sem var að slitna frá bryggju.

„Við náðum að koma spottum í hann og binda," segir Jón Sigurðsson, formaður björgunarsveitarinnar Vopna. „Ég hef ekki heyrt af neinu tjóni hér."

Vopnfirðingarnir fóru hins vegar líkt og Jökuldælingar upp á Möðrudalsöræfi þegar verið að var loka veginum þar. „Við vildum hreinsa svæðið áður en við lokuðum og fylgdum nokkrum aftur til byggða."

Sveitirnar aðstoðuðu þar hins vegar erlenda ferðamenn á sunnudag. Tvö útköll komu á nánast sama tíma, annað á Vopnafjarðarheiði en hitt að Jökulkinn þar sem útsýnispallurinn yfir Möðrudal er.

Vegna misskilnings var talið að um eitt útkall væri að ræða og fóru Jökuldælingar til að aðstoðar á Vopnafjarðarheiðinni.

Þremur tímum síðar fóru Vopnfirðingar til aðstoðar ferðamönnunum í Jökulkinn og kom þeim í gistingu í Möðrudal. Þeir voru ögn skelkaðir eftir talsverða bið en að öðru leyti rólegir.

Á tveimur stöðum aðstoðuðu björgunarsveitirnar veitufyrirtæki og á Egilsstöðum var opnað fyrir niðurföll í Bláskógum. Alls tóku 46 manns þátt í aðgerðunum.

„Við sluppum ótrúlega vel," segir Guðjón Már Jónsson, formaður svæðisstjórnar björgunarsveita á Austurlandi.

Mynd: Nikulás Bragason

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar