Fortitude: „Svolítið eins og að koma á sitt annað heimili“
Reyðarfjörður er að taka á sig mynd Fortitude á nýjan leik, smábæjarins á Svalbarða þar sem ógnvænlegir atburðir eiga sér stað.Upptökur af annarri þáttaröðinni hefjast í febrúar, en líkt og áður er það helst miðbærinn sem breytir um svip – búið er að byggja utan á Tærgesen-húsið, sem og að breyta verslun N1 í „Snow & Ice" sem virðist selja allt það helsta sem þarf til að komast af á norðurhjara veraldar.
Pétur Sigurðsson, framleiðslustjóri þáttanna, hefur verið á Reyðarfirði að undanförnu, ásamt 20 manna hópi frá Bretlandi, til þess að leggja lokahönd á að velja nýja tökustaði.
„Það borgar sig að vera í tíma með þetta, sem og að leikmyndadeildin er farin að vinna á fullu, en leikmyndin er ekki sett upp á einni nóttu. Tökur fara fram í febrúar og svo aftur frá marslokum og út apríl," segir Pétur.
Aðspurður hvort það sé ekki annað að standa að undirbúningi núna en síðast segir hann: „Jú vissulega er auðveldara þegar maður þekkir til, þetta er svolítið eins og að koma á sitt annað heimili."