Landsbankinn: Tölurnar sýna að tími er kominn á breytingar á Seyðisfirði

helgi teitur helgason landsbankinn des15 0004 webFramkvæmdastjóri einstaklingsþjónustu hjá Landsbankanum segist skilja áhyggjur Seyðfirðinga af breytingum á afgreiðslu bankans þar. Hann segir ráðist í þær út af því að heimsóknum hafi farið fækkandi, samhliða aukinni notkun á netbanka og annarri slíkri tækni.

Helgi Teitur Helgason tók fyrir hönd bankans við undirskriftum 314 Seyðfirðinga, sem er um helmingur íbúa, á fundi í afgreiðslunni í dag. Til stendur að færa það í húsnæði sýsluskrifstofunnar eftir áramót, stytta opnunartímann og fækka starfsmönnum úr þremur í einn.

Þær breytingar hafa lagst illa í heimamenn og mættu um 50 gestir á fundinn til að gagnrýna áformin. „Ég skil og virði áhyggjur Seyðfirðinga. Á fundinum reyndi ég að útskýra hvað við erum að gera, af hverju og hvenær," sagði Helgi Teitur í samtali við Austurfrétt eftir fundinn.

Minnkandi aðsókn í útibúið

Landsbankinn og Íslandspóstur hafa undanfarin ár verið með sameiginlega afgreiðslu á staðnum. Helgi Teitur segir hins vegar eftirspurn Seyðfirðinga eftir bankaþjónustunni hafa minnkað.

„Þegar við sjáum að heimsóknir til póstsins eru margfalt fleiri förum við að hugsa af hverju við séum að reka bankaafgreiðslu sem sé í raun póstafgreiðsla.

Tölurnar sem blasa við okkur sýna að kominn er tími á breytingar á Seyðisfirði. Við erum ekki að loka heldur breyta í takt við það sem gerst hefur í bankaþjónustu hérlendis og víðar í Evrópu. Hefðbundnum bankaheimsóknum hefur fækkað og fólk nýtir sér frekar sjálfsafgreiðslulausnir."

Einn gjaldkeri verður til staðar á sýsluskrifstofunni og opið milli 12 og 3 alla daga. Eftir er að ákveða staðsetningu hraðbanka en Helgi Teitur segir 2-3 staði koma til greina fyrir hann. „Umfang viðskiptanna á Seyðisfirði er þannig að við metum að með þessu móti getum við áfram veitt góða bankaþjónustu."

Stefna að færa bankaviðskiptin á netið

Einnig sé verið að hagræða innan bankans. Þótt tekjur tapist þegar hætt verði að þjónusta Póstinn er áætlað að núvirtur ábati bankans verði 50-60 milljónir á fimm ára tímabili.

Það er hins vegar ekki hátt hlutfall af tæplega 30 milljarða króna hagnaði bankans í fyrra. Helgi Teitur segir góða afkomu bankans síðustu ár aðallega skýrast af því að útlánasöfn sem keypt hafi verið af gamla Landsbankanum hafi komið betur út en áætlað hafi farið. Viðskiptabankastarfsemin sé enn fremur traust en fækkun útibúa og aukin bankaviðskipti á netinu sé stefna sem unnið sé eftir. Þau auki hagkvæmni bankans sem komi viðskiptavinum til góða.

Undanfarin ár hafi 22 útibúum og afgreiðslum verið lokað en 10 ný verið opnuð í staðinn þar sem Landsbankinn hafi yfirtekið rekstur sparisjóða. Slíkt gerðist til dæmis á Breiðdalsvík og Djúpavogi í vor.

Nokkur umræða hefur verið um framtíð afgreiðslnanna á Djúpavogi og Breiðdalsvík. Stjórnendur bankans hafi í vor hitt forsvarsmenn sveitarfélaganna og rætt um framtíð útibúanna, meðal annars möguleika á samstarfi við opinbera eða hálfopinbera aðila til að tryggja að starfsmenn bankans séu ekki einir heilu og hálfu dagana og um leið tryggja öryggi þeirra.

Á Vopnafirði sé umfang viðskiptanna meira en á Seyðisfirði. Þar er bankinn í eigin húsnæði og í eigin húsnæði. Að auki eru útibú á Egilsstöðum, Reyðarfirði og í Neskaupstað.

Skoða lausnir fyrir ferjudaga

Á fundinum í dag kom meðal annars fram gagnrýni um að húsnæði sýsluskrifstofunnar væri óhentugt sem og svæðið fyrir utan þegar mikil umferð sé á ferjudögum.

Helgi Teitur segir húsnæðið verða skoðað betur af sérfræðingum úr eignadeild bankans á næstu dögum. Fyrstu athuganir bendi til að lítið þurfi að gera til að afgreiðslan geti færst þangað inn og það eigi að anna þeirri umferð sem venjulega sé þar um. Sérstakar lausnir fyrir álag á ferjudögum verði skoðaðar.

„Ég skil áhyggjur Seyðfirðinga. Við hlustum á það sem fundarmenn sögðu okkur og reynum að taka yfirvegaða ákvörðun. Ef allt verður jafn ómögulegt og einhverjir á fundinum óttuðust hljótum við að vera menn til að endurskoða ákvörðunina.

Ég mun ræða fundinn á mínum vinnustað en ákvörðunin byggir á tölum, rökum og áætlunum. Við höfum áhuga á að láta á það reyna hvort þetta gangi upp og vonumst til að Seyðfirðingar sjái einhverja glóru í því sem við erum að gera."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar