Stöðvarfjörður: Hálft Söxuver horfið og þakplötur á ferðinni

Lögreglumenn eru á leið á Stöðvarfjörð til að kanna skemmdir sem orðið hafa þar í óveðri í nótt. Þakplötur fuku af frystihúsinu og gömul verðbúð er að hálfu horfin. Íbúi segist ekki hafa upplifað annað eins þann aldarfjórðung sem hann hefur búið í þorpinu.


„Við hjónin erum farin í skjól í húsinu. Við erum ekki í stofunni, það gengur svo mikið á gluggunum. Við höfum búið hér í 25 ár og þetta er langt um versta veðrið.“

Þetta segir Albert Geirsson sem býr á Stöðvarfirði. Hann er með veðurstöð á þaki hússins sem sýndi tuttugu mínútur í níu vindhviðu upp á 57,2 m/s. Bæði klukkan hálf tíu og hálf ellefu komu hviður upp á 50 m/s. Þá fór loftþrýstingurinn niður í 943 millibör klukkan hálf sex. „Þetta er búið að vera svakalegt veður í morgun.“

Hús Alberts stendur innarlega í þorpinu og skammt inn af því stóð gömul verbúð sem kallast Söxuver.

„Þetta er stórt hús á einni hæð, trégrind byggð ofan á steingrunni og það er horfið af hálfu leyti. Það hefur verið notað sem geymsla og verkstæði og ég sé að spýtnabrak úr því hefur fokið á rafstöðvarhúsið fyrir innan.“

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hefur orðið „töluvert tjón á húsnæði“ á Stöðvarfirði í óveðrinu í nótt en lögreglumenn frá Fáskrúðsfirði eru á leið yfir til að kanna aðstæður.

Þakplötur rifnuðu af frystihúsinu í nótt en þær hafa farið af fleiri húsum í bænum. Rúður hafa brotnað og skemmdir orðið á skúrum í höfninni.

„Það fýkur drasl yfir húsið hjá mér öðru hvoru,“ sagði Albert.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.