Páll Björgvin: Björgunarsveitirnar okkar eru ótrúlegar

Bæjarstjóri Fjarðabyggðar segist þakklátur öllum þeim viðbragðsaðilum og fjölda sjálfboðaliða sem komið hafi að björgunaraðgerðum um allt sveitarfélagið í ofsaveðrum síðustu daga. Hann segir íbúa þakkláta fyrir að veðrið sé gengið yfir.


„Maður er snortinn yfir gríðarlegum krafti í samvinnu fólks og því að ekki hafi orðið slys á fólki þótt ljóst sé að mikið tjón er á eignum,“ segir Páll Björgvin.

Tvær djúpar lægðir hafa hrellt Austfirðinga undanfarna þrjá sólarhringa. Í fyrradag gekk yfir lægð með mikilli úrkomu og hlýindum þannig að mikið vatn fór á ferðina, flæddi inn í hús og skemmdi vegi og fleiri mannvirki.

Í morgun gekk síðan yfir ein alversta lægð sem Austfirðingar hafa kynnst. Dagurinn á milli var nýttur í skipulag og hafa björgunarsveitir og aðrir viðbragðsaðilar lítið hvílst í hartnær þrjá sólarhringa.

„Það er ánægjulegt að sjá hve kerfið okkar er magnað og björgunarsveitirnar með sínum krafti og skipulagi eru ótrúlegar.

Við erum þakklát þeim, bæjarstarfsmönnum, lögreglu, slökkviliði og fleirum sem hafa reitt af hendi vinnu, oft sjálfboðaliðavinnu, til að bjarga því sem bjargað varð. Við hefðum verið mun verr sett ef þessara krafta hefði ekki notið við.

Þegar kemur að svona hlutum er stutt á milli manna. Við kölluðum aðila allt suður á Breiðdalsvík á fund almannavarnanefndar með klukkutímafyrirvara í gærmorgun og það náðust allir saman.“

Starfsmenn Viðlagatryggingar komu austur í gær til að skoða ástandið eftir flóðin. Von er á þeim aftur fljótlega enda ljóst að tjón hefur orðið á húsum, hafnarmannvirkjum, grjótvörnum, vegum, skipum og fleiru.

Starfsmenn sveitarfélagsins reyna að meta stöðuna, tjónið á innviðum þess, í dag og á morgun og í kjölfarið verður sett í gang áætlun um viðgerðir. Þá hefur forsætisráðherra heitið því að kalla saman viðbragðshóp.

Bæjarstjórinn var í Neskaupstað meðan veðrið gekk yfir og hafði þegar Austurfrétt ræddi við hann seinni partinn ekki átt kost á að fara um og skoða stöðuna. Hann segist hins vegar hafa fengið mikið af myndum frá stöðunum sunnan Oddsskarðs og heyrt í fólki.

„Fólkið er ánægt með að stormurinn sé genginn yfir þótt margir hafi orðið fyrir tjóni. Nú sjáum við til hvað gert verður. Við höldum áfram að taka til og koma hlutunum í lag.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.