Vill íbúðir í Bónusblokkinni á uppboð
Íbúðalánasjóður hefur farið fram á að sjö íbúðir í Blómvangi 2, betur þekktri sem Bónusblokkinni á Egilsstöðum, verði settar á uppboð vegna vangoldinna gjalda. Hönnun blokkarinnar er að auki meingölluð.Greint er frá beiðninni um uppboðið í Lögbirtingablaðinu. Kröfur sjóðsins á hverja íbúð eru um hálf milljón króna.
Íbúðirnar sjö eru allar skráðar á Blómvang ehf. Í ársreikningi félagsins fyrir árið 2011 kemur fram að eigið fé félagsins hafi í lok þess árs verið neikvætt um tæpar 76 milljónir króna.
Athygli vekur í ársreikningnum að engar fasteignir eru skráðar á félagið. Einu eignirnar eru efnisbirgðir sem metnar eru á rúmar 115 milljónir króna og 150 þúsund krónur í reiðufé.
Lögheimili félagsins er í Reykjavík. Tap varð á rekstri félagsins upp á 1,5 milljón króna og langtímaskuldir þess nema tæpum 180 milljónum.
Blokkin var byggð árið 2005 og í henni eru 23 íbúðir. Hún var nýverið í fréttum vegna hönnunar- og smíðagalla sem dómkvaddir matsmenn telja að kosti yfir 80 milljónir króna að laga.