Farið fram á nauðungarsölu á Fagradalsbraut 25
Sveitarfélagið Fljótsdalshérað hefur farið fram á að Fagradalsbraut 25 verði seld á nauðungarsölu. Illa hefur gengið að halda úti starfsemi í hinu stóra verslunarhúsi sem var meðal síðustu verka Malarvinnslunnar.Beiðnin um nauðungarsöluna kemur fram í Lögbirtingablaðinu. Um er að ræða um 1000 fermetra verslunarhús sem lokið var við að byggja árið 2008.
Beiðnin nær til fjögurra bila af fimm í húsinu sem eru í eigu Fagradalsbrautar 25 ehf. sem aftur er í eigu Bíldekks ehf. Í ársreikningi fyrir árið 2011 kemur fram að eigið fé félagsins í lok þess árs hafi verið neikvætt um 7,6 milljónir króna. Félagið eignaðist húsnæðið fyrir um 40 milljónir króna árið 2010 af þrotabúi Malarvinnslunnar. Hvorki húsnæðið né lóðin voru þá fullkláruð en talsvert hefur verið unnið í húsnæðinu og lóðinni síðan.