Auglýst eftir skólameistara við VA
Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur auglýst embætti skólameistara Verkmenntaskóla Austurlands laust til umsóknar. Skipað verður í stöðuna til fimm ára.Þórður Júlíusson hefur gegnt stöðunni í vetur í fjarveru Olgu Lísu Garðarsdóttur sem fékk árs leyfi og réði sig sem skólameistara Fjölbrautarskóla Suðurlands. Hún mun ekki vera væntanleg aftur og reglum samkvæmt þarf því að auglýsa starfið formlega til frambúðar.
Í auglýsingu sem birtist í Lögbirtingablaðinu segir að skólameistari skuli hafa „starfsheitið framhaldsskólakennari og viðbótarmenntun í stjórnun eða kennslureynslu á framhaldsskólastigi.
Leitað er eftir einstaklingi með stjórnunarreynslu, leiðtoga- og samskiptahæfni, reynslu af stefnumótunarvinnu og hæfileika til nýsköpunar.“
Mennta- og menningarmálaráðherra skipar skólameistara til fimm ára í senn af fenginni umsögn skólanefndar Verkmenntaskólans. Ráðið er í starfið frá 1. ágúst. Umsóknarfrestur um starfið er til föstudags.