50 björgunarsveitarmenn aðstoðuðu ferðalanga í gærkvöldi

Annríki var hjá austfirskum björgunarsveitum seinni partinn í gær og gærkvöldi. Snjóflóð lokaði veginum yfir Fagradal og flytja þurfti lækni til Seyðisfjarðar.

Samkvæmt tilkynningu frá Landsbjörgu komu 50 björgunarsveitarmenn að aðgerðunum í gær.

Flytja þurfti fólk úr nokkrum bílum á Fagradal til Reyðarfjarðar í björgunarsveitarbílum eftir að snjóflóð lokaði veginum.

Ófært var á Fjarðarheiði og sáu björgunarsveitarmenn um að flytja lækni frá Egilsstöðum til Seyðisfjarðar þar sem enginn læknir var á staðnum.

Flestum verkefnunum var lokið fyrir miðnætti og björgunarsveitarfólk komið til síns heima.

Að kvöldi jóladags björguðu björgunarsveitarfólk frá Djúpavogi fólki sem farið hafði upp á Breiðdalsheiði þrátt fyrir að lokunarskilti væri fyrir veginum.

Ferðamenn á tveimur bílum á leið í austurátt til Egilsstaða urðu viðskila í dag, þar sem annar bíllinn ók um suðurfirðina en hinn stefndi upp á Breiðdalsheiði.

Frá Fagradal í gærkvöldi. Mynd: Róbert Beck

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar