50 manna rúta fauk út af við Svartfell
Rúta með fimmtíu farþegum fauk út af veginum við Svartfell á Möðrudalsöræfum í hádeginu og tvær aðrar minni lentu í árekstri. Engin slys urðu á fólki og eru björgunarsveitir að ferja fólkið af slysstað.
„Aðstæður þarna eru rosalega slæmar. Vindhraðinn er 31 m/s og 36 m/s í hviðum. Frostið er fimm stig og snjókoma með þessu þannig að kælingin er gríðarlega mikil,“ segir Jón Sigurðarson, formaður björgunarsveitarinnar Vopna sem tekur þátt í aðgerðunum.
Á vettvangi eru yfir 20 björgunarsveitarmenn frá sjö sveitum af Norður- og Austurlandi. Útkallið barst um hádegið eftir að 50 manna rúta hafði fokið út af og tvær aðrar minni með samtals um 20 farþega skollið saman.
Engin slys urðu á fólki en farþegum annarrar af minni rútunum var orðið töluvert kalt þar sem rúður í henni brotnuðu og drapst á vélinni.
Fólkið er ferjað í rútu sem bíður við afleggjarann að Vopnafirði. Útkallið barst rétt fyrir hádegi og er von á að aðgerðum verði lokið fyrir klukkan fjögur.
Töluverð rútuumferð er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum þar sem ferjan Norræna kom til hafnar á Seyðisfirði í morgun. Algegnt er að rútur sem koma með ferjunni fari í dagsferðir að Mývatni.
Vegurinn um Langadal við Svartfell er sú leið á Hringveginum sem liggur hæst yfir sjó en vegurinn er fer þar í um 600 metra hæð.