Gagnast áherslur nýrrar ríkisstjórnar launafólki frekar en sérhagsmunahópum?
Verkalýðshreyfingin býr sig undir baráttu í komandi kjarasamningum sem snúist um fleira en feitari launaumslög. Velferðarkerfið þarf ekki síður að verja og berjast fyrir varanlegum lausnum sem nýtast til hagsbóta launþegum.Þetta kom fram í fyrsta maí ávarpi AFLs – starfsgreinafélags sem dró mark af því að þingkosningar voru nýafstaðnar.
Þar er lýst takmarkaðri trú á að staðið verði við stóru kosningaloforðin, helsta baráttan verði áfram að takast á við afleiðingar efnahagshrunsins.
„Það sem mun breytast eru áherslurnar,- munu þær áherslur gagnast launafólki frekar en sérhagsmunahópum? Það er verkefni okkar að sameinast um að svo verði,“ sagði Sigurður Hólm Freysson, varaformaður, sem flutti ávarpið á Egilsstöðum.
Nýir kjarasamningar snúast um félagslegt réttlæti
Viðræður um nýja kjarasamninga hefjast í haust. Þær snúast um meira en að „sækja meira í launaumslögin til atvinnulífsins.“
Stóran er sögð snúast um „félagslegt réttlæti. Að ná sáttum í þjóðfélaginu á forsendum launafólks og heimilanna í landinu.“
Þar eru nefnd húsnæðislán á svipuðum kjörum og á Norðurlöndunum og koma „launafólki út úr vítahring síðustu áratuga í formi hárra vaxta og verðtryggingar.“
Velferðarkerfið ber einnig á góma þar sem lögð er áhersla á að haldið verði í norrænar fyrirmyndir en ekki farið í „frjálslynt, kapítalískt kerfi“ þar sem kostnaðurinn lendir á einstaklingnum.
Niðurskurður í heilbrigðiskerfinu bitnar harðast á konum
Sérstökum áhyggjum er lýst af kjörum starfsmanna heilbrigðisstofnana. „Þar starfa nær eingöngu konur, sem hafa tekið á sig alvarlegar kjaraskerðingar á síðustu árum, bæði í formi þess að starfsfólki hefur fækkað og álag aukist á þá starfsmenn sem eftir.
Skerðingar á starfshlutföllum er nokkuð sem stjórnendur í heilbrigðisgeiranum bjóða starfsmönnum upp á en það dettur engum í hug að bjóða öðrum en konum upp á slíka afarkosti.“
Kaupmáttur – atvinna – velferð voru einkunnarorð íslensku verkalýðshreyfingarinnar á 1. maí í ár. Þar var meðal annars minnst á átakið „vertu á verði“ þar sem félagsmenn eru hvattir til að senda inn upplýsingar á verð á vöru og þjónustu og breytingar til að veita aðhald.
Ekki virðist veita af. „Krónan hefur styrkst um 11% á síðustu tveim mánuðum, -kannast einhver við að verð á innfluttri vöru hafi lækkað?
- Nei, ekki nema þá helst á eldsneyti!“