Sterna lagði SSA í héraðsdómi: Ósannað að hver sem er gæti keypt hringmiða

egilsstadirHéraðsdómur Austurlands hafnaði í dag kröfu Sambands sveitarfélaga á Austurlandi á að staðfesta lögbann á reglubundnum fólksflutningum Sternu á leiðinni Höfn-Egilsstaðir-Höfn. Sterna hélt því fram að ferðirnar væru aðeins fyrir handhafa hringmiða fyrirtækisins. Ekki þótti sannað af hálfu SSA að aðrir gætu keypt miðana.

Sýslumaðurinn á Höfn setti lögbann á akstur Sternu á leiðinni þann 18. júlí að beiðni SSA. Bæði SSA og Vegagerðin höfðu vikurnar á undan sent fyrirtækinu bréf þar sem bent var á að SSA hefði einkaleyfi á að úthluta leyfi til reglubundinna fólksflutninga á leiðinni.

Lögmaður SSA lagði fram útprent af vef Sternu með tímatöflu af stoppistöðvum á leiðinni. Þar var ekkert tekið fram um verð eða hverjum ferðirnar væru opnar. Af hálfu SSA var því haldið fram að um væri að ræða daglegar ferðir á milli Hafnar og Egilsstaðir sem hver sem er gæti nýtt sér gegn gjaldi.

Því hafnaði Sterna. Um væri að ræða hringmiða sem ferðamenn gætu keypt sér og valið sér hvort þeir vildu fara réttsælis eða rangsælis hringinn í kringum landið með fyrirtækinu. Stoppað væri á helstu ferðamannastöðum.

Eftir að lögbannið kom fram lagði Sterna fram nýtt útprent af vefnum þar sem búið var að bæta við upplýsingum um að ferðirnar væru aðeins opnar hringmiðahöfum og að Strætó sæi um almenningssamgöngur.

Dómurinn taldi að ekkert hefði komið fram af hálfu SSA sem sannaði að ferðirnar hefðu verið opnar öðrum en þeim sem keypt hefðu aðgang að einni hringferð í kringum landið. Lögregluskýrsla, sem SSA lagði fram máli sínu til stuðnings, um eitt atvik um annað sannaði lítið.

Í málsvörn Sternu var því haldið fram að þar sem hvorki væri að finna orðin einkaleyfi eða sérleyfi í samningi Vegagerðarinnar við SSA hefði sambandið ekki einkaleyfi á leiðinni. Því hafnaði dómurinn. Inntakið í samningnum væri nægilega skýrt þótt orðin sjálf stæðu þar ekki.

Í dómnum er einnig tekið fram að hugtakið „almenningssamgöngur“ sé hvergi skilgreint í íslenskum lögum. Þar sé hins vegar bæði fjallað um reglubundna og óreglubundna fólksflutninga.

Reglubundnu flutningarnir snúist um fastar ferðir á ákveðinni leið samkvæmt fyrirfram birtri áætlun þar sem farþegar séu teknir upp í og settir af á leiðinni og þjónustan sé öllum opin.

Óreglulegu flutningarnir snúist hins vegar um flutning á hópi fólks sem sé til kominn að frumkvæði viðskiptavinar eða leyfishafans sjálfs. Þær ferðir geti verið farnar með reglulegu millibili án þess að teljast reglubundnir flutningar.

Í ljósi þessa verði ekki séð að fólksflutningar Sternu í þessu tilfelli falli undir skilgreininguna á reglubundnum fólksflutningum.

Dómurinn taldi því hvorki skilyrði til að verða við kröfu SSA um að viðurkennt yrði með dómi að Sternu væri óheimilt að stunda reglubundna fólksflutninga á leiðinni né staðfestingu á lögbanninu. SSA var að auki dæmt til að greiða Sternu 700.000 krónur í málskostnað.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar