Nálægðin við hreindýr, jöklana og dalina ekki síður söluvænleg en austfirska sumarið

magnea hjalmarsdottir icelandairhotelsForsvarsmenn Icelandair hyggja á aukna markaðssetningu á ferðum til Austurlands á veturna á næstu misserum, sérstaklega á Bretlandsmarkaði. Efla þarf framboðið á þeirri afþreyingu sem er í boði allt ársið á svæðinu.

Þetta kom fram í máli Magneu Hjálmarsdóttur, stjórnarformanns Icelandair Hotels, þegar aðalsalur Hótels Héraðs var opnaður á ný eftir endurbætur fyrir skemmstu.

Endurbæturnar voru hluti af endurskilgreiningu vörumerkis hótelkeðjunnar þar sem aukin áhersla er lögð á sérstöðu hvers hótels og nærumhverfis. Þannig hefur hótelið á Egilsstöðum fengið nýtt merki með hreindýri.

Magnea segir merkið endurspegla „vetraráherslu“ Icelandair hyggst fara í átak í markaðssetningu Austurlands í vetrarferðamennsku. „Nálægðin við hreindýrin, jöklana og dalina er ekki síður söluvænleg en austfirska sumarið.“

Hún nefndi hvernig vetrarferðamönnum á Akureyri hefði á fáum árum fjölgað úr 800 í 6000 með markaðsátaki. „Við þurfum þennan hóp líka hingað,“ sagði Magnea.

Til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að bæði fyrirtæki í ferðaþjónustu og sveitarfélög sameinist um uppbyggingu. Það gerðist fyrir norðan og skilaði árangri.

„Hér á Austurlandi þurfum við öll í sameiningu að tryggja að áfangastaðurinn standi undir loforðunum um þessa einstöku íslensku upplifun. Þjónustan verður að vera stöðug og það hefur verið galli að ákveðnir hluti hafa ekki verið í boði allt árið.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar