Hallormsstaðarskóli: Á hvaða tímapunkti getum við haldið þessu áfram?
Forsvarsmenn sveitarfélaganna Fljótsdalshéraðs og Fljótsdalshrepps hafa hafið viðræður um framtíð grunnskólans á Hallormsstað. Nemendum þar hefur fækkað jafnt og þétt og undanfarin ár og ekki sér fyrir endann á því. Faglega starfið var einnig til umræðu á opnum borgarafundi á Hallormsstað fyrir skemmstu.Næsta vetur er reiknað með að 20-30 nemendur verði í skólanum, þar af 3-5 úr Fljótsdal. Miðað við spár verða 16 börn eftir árið 2019. Rekstur skólans kostar 120 milljónir króna á ári. Til samanburðar má nefna að 340 nemendur eru í Egilsstaðaskóla, um 100 í Fellaskóla og 40 í Brúarási.
„Á hvaða tímapunkti getum við haldið þessu áfram,“ spurði Gunnar Jónsson, formaður bæjarráðs Fljótsdalshéraðs. „Það hefur ekki verið boðskapur okkar að loka hér en staðan er ekki góð og það er ábyrgðarlaust að horfast ekki í augu við hana.“
Forráðamenn sveitarfélaganna hittust á fundi um framtíð skólans fyrr sama dag. „Við vorum sammála um að skoða framtíðina og gera það hratt og örugglega,“ sagði Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórar, um fundinn.
Skortur á framtíðarsýn
Breyttur rekstur eða önnur skólastefna er meðal þess sem hent hefur verið fram sem hugmyndum. Í máli fundargesta kom fram að hnignun skólans mætti bæði rekja til barnafæðarinnar og þess að starfinu hefði farið faglega aftur. Ekki hefði verið unnið með framtíðarsýn og við núverandi stöðu blæði honum hægt út. Fólkið á staðnum væri meira að segja farið að taka börnin sín úr skólanum.
Fljótsdalshérað hefur rekið fjóra grunnskóla, með skólanum á Hallormsstað, og hafa íbúar getað valið um í hvern þessara skóla þeir senda börn sín.
Verður að skoða hvað sé framundan
„Við höfum talið að við værum með hluti hér sem við höfum ekki annar staðar eins og þetta frjálsa val. Það er samt farið að knýja alvarlega á að menn skoði hvað er framundan,“ sagði Stefán.
„Markmiðið með skólastarfi er fyrst og fremst að búa vel að börnunum en skólarnir eru líka lykilþáttur í búsetuþróun. Síðan er það fjárhagsþátturinn, hverju eru menn tilbúnir að kosta til?“
Gunnar Jónsson benti á að sveitarfélagið fái ekki greitt úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga með þeim nemendum úr þéttbýlinu sem sæki í sveitaskólana. Skólaakstur þeirra sé því alfarið greiddur af sveitarfélaginu.
Nemendur stoltir af því að tilheyra skólanum
Foreldrar barna í skólanum funduðu nýverið um skólastarfið. Í bréfi sem sent var skólastjórnendum og fræðsluyfirvöldum segir að almenn ánægja ríki meðal foreldra og nemenda gagnvart skólanum og „virðast flestir stoltir af því að tilheyra honum.“
Bent er á þrjá meginþætti sem megi efla: Auka útkennslu í skóginum sem sé sérstaða skólans, möguleikar á tónmenntakennslu verði efldir og að upplýsingaflæði frá umsjónarkennurum verði aukið.
„Ef við getum ekki uppfyllt félagslegar þarfir nemenda verðum við að taka þá ábyrgð og ákvarðandi ef til við teljum að nemendunum sem betur borið í öðrum skóla,“ sagði Karl S. Lauritzsson, bæjarfulltrúi D-lista.
Fólksfækkun rót vandans?
Vandamál skólans endurspeglar annað vandamál sem er fólksfækkun í dreifbýli. Innan Fljótsdalshéraðs hefur þróunin stöðugt verið sú að íbúum í sveitunum fækkar en fjölgar í þéttbýlinu.
„Við getum ekki bara sett upp sólgleraugun og ekki horfst í augu við vandann,“ sagði Sigrún Blöndal, bæjarfulltrúi Héraðslistans. „Spurningin er hvernig menn eiga að tryggja áframhaldandi búsetu. Skólinn er bara einn þáttur í þessu.“