Austurbrú: Stofnkostnaður nær tvöfalt meiri en ráð var fyrir gert
Stofnun stoðstofnunarinnar Austurbrúar varð tæplega tvöfalt dýrari en áætlanir gerðu ráð fyrir. Framkvæmdastjórinn segir það hugrekki að ráðast í þá áskorun sem sameining stoðstofnananna í eina hafi verið. Takist það vel verði það öðrum til eftirbreytni en þolinmæði þurfi til að verkefnið lukkist sem best.Samkvæmt ársreikningi Austurbrúar voru um þrjátíu milljónir króna gjaldfærðar á yfirstjórn en um fimm milljónir tekjufærðar á móti. Yfirstjórnin er sá rekstrarliður þar sem færður er sameiginlegur kostnaður sviða stofnunarinnar.
Í svari við fyrirspurn Austurfréttar segir að gert hafi verið ráð fyrir 16 milljónum króna í kostnað við stofnun Austurbrúar.
Rúmlega níu milljóna tap á fyrsta árinu
Austurbrú var stofnuð formlega 8. maí í fyrra við samruna Þekkingarnets Austurlands, Þróunarfélags Austurlands, Menningarráðs Austurlands, Markaðsstofu Austurlands og skrifstofu Sambands sveitarfélaga á Austurlandi.
Í ársreikningi stofnunarinnar kemur fram að Austurbrú hafi tekið yfir eignir og skuldir þessara stofnana og félaga á bókfærðu verði 1. maí 2012. Eigið fé var þá neikvætt um 2,3 milljónir króna.
Rekstrarniðurstaða stofnunarinnar á fyrsta árinu var neikvæð um 9,3 milljónir króna og eigið fé í árslok því neikvætt um 11,6 milljónir. Í áætlun var gert ráð fyrir 1,5 milljóna króna tapi.
Tíðar mannabreytingar
Sameiningin hefur sætt gagnrýni úr ýmsum áttum. Til dæmis hafa menn lýst áhyggjum af tíðum mannabreytingum bæði í aðdraganda sameiningar og eftir að stofnunin komst á laggirnar.
Framkvæmdastjórinn, Þorkell Pálsson, sem kom til starfa í apríl hvarf á braut í júlí og Finnbogi Alfreðsson, fulltrúi nýsköpunar- og þróunarsviðs, starfaði í fjóra mánuði.
Þrír einstaklingar sem verið höfðu hjá Þekkingarnetinu hættu störfum 1. ágúst og framkvæmdastjóri Þróunarfélags Austurlands rétt fyrir sameiningu. Hræringar hafa einnig verið á markaðssviðinu. Árný Björg Bergsdóttir, sem tók þar við forstöðu 1. ágúst hætti fyrir nokkrum dögum og hefur Jón Pálsson tekið við hennar starfi.
Fleiri hrókeringar hafa einnig orðið innan stofnunarinnar eins og gengur og gerist um nýjar stofnanir.
„Austurbrú lausnin sem margir höfðu beðið eftir“
Í nóvember tók Karl Sölvi Guðmundsson við starfi framkvæmdastjóra. Í ársskýrslu segist hann hafa gert sér grein fyrir að sameining stoðstofnana á Austurlandi væri „mikil áskorun“ en sjálfur tók hann þátt í stjórnskipulagsbreytingum í Háskóla Íslands.
Hann talar um að Austurland hafi sýnt „gríðarlegt frumkvæði og hugrekki“ með sameiningu stoðstofnananna. Unnið sé „brautryðjendastarf“ sem aðrir taki upp ef vel tekst til.
Hann hafi strax gert sér grein fyrir að miklar væntingar höfðu verið gerðar til Austurbrúar. „Austurbrú var lausnin sem margir höfðu beðið eftir og báru væntingar til að myndi leysa mörg vandamál.“
Uppgjöf og hræðsla við breytingar mega ekki ná yfirhöndinni
Í ávarpi sínu í árskýrslunni kallar Karl Sölvi eftir samstöðu og trú á verkefnið hjá öllum aðilum. „Hagur eins er hagur annars. Nýtt starf í einu byggðarlagi skapar afleidd störf jafnvel í öðrum byggðarlögum. Þess vegna þarf að líta heildstætt á samgöngumál bæði í lofti, á landi og á sjó þar sem bættar samgöngur skapa afleidd tækifæri til uppbyggingar landshlutans.
Mannlegt eðli er mun flóknara en skipurit í glærukynningum og eðli málsins samkvæmt er erfitt og krefjandi verkefni að sameina ólíka málaflokka, ólíkt vinnulag og ólíka hagsmuni til að ná sameiginlegu markmiði.
Það er aftur á móti vel gerlegt ef viljinn er fyrir hendi. Gagnrýnin hugsun og samvinna eru leiðir til árangurs og fortíðarþrá, uppgjöf og hræðsla við breytingar mega ekki ná yfirhöndinni.“