Heilbrigðiseftirlitið lokaði N1 stöðinni á Reyðarfirði

n1 stod rfjSjálfsafgreiðslustöð olíufélagsins N1 á Reyðarfirði var lokuð í tæpan sólarhring því fyrirtækið hafði ekki uppfyllt skilyrði starfsleyfis. Fyrirtækinu var í morgun veittur frestur út næstu viku til úrbóta.

Stöðinni var lokað seinni partinn í gær þar sem ekki höfðu verið uppfyllt skilyrði laga um varnir gegn olíumengun þar sem segir að afgreiðslutækin eigi að staðsetja á upphækkun til að verja þau hnjaski.

Deilan er ekki ný af nálinni en Heilbrigðiseftirlitið gerði athugasemdir við uppsetninguna strax þegar starfsleyfi stöðvarinnar var gefið út í desember.

Bráðabrigðastarfsleyfi rann út í febrúar án þess að nokkuð væri að gert. Þann 17. apríl var N1 sent bréf og farið fram á að fyrirtækið færi að leyfum og sækti tafarlaust um starfsleyfi eða lokaði henni.

Daginn eftir sendi N1 bréf til heilbrigðisnefndar með ósk um tímabundið starfsleyfi fyrir stöðina „á meðan deilumál væru útkljáð.“

Heilbrigðisnefnd hafnaði umsókninni þar sem stöðin uppfyllti ekki skilyrðin og engar áætlanir lágu fyrir um úrbætur. Nefndin samþykkti því á fundi sínum í lok maí að stöðinni yrði lokað að veittum andmælarétti.

N1 hafði ekki bætt úr í gær og var stöðinni þá lokað. Helga Hreinsdóttir, framkvæmdastjóri HAUST, segir að yfirmenn fyrirtækisins hafi tekið „fljótt og vel við sér“ í kjölfarið.

Fyrirtækið lofaði upphækkun að kröfu HAUST auk þess sem sett hefur verið upp bráðabirgða árekstrarrekstursvörn.

Eftir að HAUST hafði metið vörnina fullnægjandi var gefið út tímabundið starfsleyfi til 5. júlí og innsiglið fjarlægt rétt fyrir klukkan eitt í dag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar