Bíll brann við íbúðarhús: Snör handtök lögreglu björguðu húsinu
Snör handtök lögreglu komu í veg fyrir að ekki fór verr þegar bíll brann við einbýlishús á Egilsstöðum í nótt. Eldurinn var byrjaður að sleikja húsið.Það var laust eftir klukkan tvö í nótt sem lögreglan á Egilsstöðum var kölluð út þar sem bifreið stóð í björtu báli við einbýlishús á Tjarnarbraut.
Þegar lögregluna bar að garði var eldurinn við það að læsa sig í húsið. Lögreglumaður brást skjótt við og sprautaði með garðslöngu á bálið. Þannig tókst að koma í veg fyrir að eldurinn bærist í húsið.
„Eldurinn magnaðist eftir að við komum. Sennilega tókst okkur naumlega að forða því að það kviknaði í húsinu. Það var í verulegri hættu,“ segir Jens Hilmarsson, lögreglumaður, en hann var fyrstur á vettvang ásamt félaga sínum.
Slökkviliðið kom á vettvang skömmu síðar. Hratt og vel gekk að slökkva í bílnum sem er aðallega brunninn að aftanverðu.
Rúða í húsinu sprakk, þakrör bráðnaði í sundur og sú hlið sem snýr að götunni er sviðin. Húsið var mannlaust er eldurinn kom upp. Eldsupptök eru ókunn.