Júnímánuður einn sá hlýjasti sem mælst hefur
Nýliðinn júnímánuður er einn sá hlýjasti sem mælst hefur á austfirskum veðurstöðvum. Hann var til dæmis sá sjötti heitasti á Teigarhorni frá því mælingar þar hófust árið 1872.Þetta kemur fram í samantekt Veðurstofu Íslands á tíðarfari í júní. Á Teigarhorni var meðalhiti mánaðarins 8,9 gráður.
Á Dalatanga var meðalhitinn 8,3°C en þar þetta fjórði heitasti júnímánuður sem mælst hefur í 75 ára sögu stöðvarinnar.
Á Egilsstöðum var meðalhitinn 10,7°C sem skipar nýliðnum júnímánuði í fimmta sætið í sínum flokki en mælingar hafa staðið þar yfir í tæpa sex áratugi.
Til samanburðar má nefna að meðalhitinn í júní í Reykjavík var 9,9°C og 11,4°C á Akureyri en þar var júní mjög hlýr.
Hæsti hiti mánaðarins mældist á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði þann 10. júní, 22,8¨C á sjálfvirkri stöð og 21,5°C á mannaðri stöð.
En Austurland átti líka lægstu hitatölurnar. Kaldast mældist á Brúarjökli -4,3°C þann 2. júní en þar var meðalhiti mánaðarins einnig lægstur, 2,7°C.
Lægsti hiti í byggð var á Fáskrúðsfirði á þjóðhátíðardaginn, -1,5°C. Að meðaltali var kaldast í Seley, 6,6°C.