Einn fluttur suður eftir harðan árekstur á Egilsstaðanesi
Ungur karlmaður var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur eftir harðan árekstur tveggja bifreiða sem komu hvor úr sinni háttinni Egilsstaðanesi í hádeginu í dag.Samkvæmt heimildum Austurfréttar mun bíllinn sem kom úr norðurátt hafa farið yfir á öfugan vegarhelming og skollið utan í hlið þess sem kom frá Egilsstöðum. Ökumaður bílsins sem kom að norðan slasaðist illa.
Hann mun ekki vera lífshættulega slasaður en að líkindum lærbrotinn. Beita þurfti klippum til að ná honum úr bílflakinu og var hann fluttur suður til Reykjavíkur með sjúkraflugi.
Þriggja manna fjölskylda var í hinum bílnum en hún slapp með minniháttar meiðsli. Ökumaður bílsins kvartaði þó undan eymslum í hálsi og var fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað til skoðunar.
Bílarnir eru taldir ónýtir en flytja þyrfti þá af slysstað með kranabíl. Lögreglan á Egilsstöðum rannsakar tildrög slyssins.