Framfarafélag stofnað á Borgarfirði: Leitum leiða til að geta verið þar sem við viljum vera

framfarafelag bogginn webTæplega fimmtíu manns sóttu stofnfund Framfarafélag Borgarfjarðar – til móts við nýjan dag, sem haldinn var í síðustu viku. Forsvarsmaður hópsins segir hvatann af félaginu koma frá ungu fólki sem sé að klára nám og hafi mikinn áhuga á að setjast að á staðnum.

„Drifkrafturinn á bakvið þetta starf sem hefur farið í gang hér í sumar er að við erum þokkalega stór hópur ungs fólks sem er að klára nám og hefur mikinn áhuga á að setjast hér að. Við erum í raun bara að leita leiða til að geta verið þar sem við viljum vera. Við viljum hjálpa okkur sjálfum við það og þannig kemur hugmyndin að félaginu,“ segir Ásta Hlín Magnúsdóttir sem stýrt hefur undirbúningsvinnunni í sumar.

Haldnir hafa verið tveir opnir fundir um samfélagsþróun á Borgarfirði í sumar. Eitt af verkefnunum í sumar hefur verið að óformleg könnun meðal ungs fólks með tengsl til staðarins. „Mikill meirihluti svarenda sagðist vilja flytja á Borgarfjörð.“

Berjast fyrir betri nettengingu

Ýmis ljón eru þó í veginum og verður það á meðal verkefna félagsins að taka af þeim. „Þær sem við höfum skilgreint sem aðalverkefni félagsins eru húsnæðismál, atvinnumál og almenn lífsgæði sem á þessari stundu snúast fyrst og fremst um nettengingu. Önnur mál geta komið upp síðar,“ segir Ásta.

Arngrímur Viðar Ásgeirsson var kjörinn fyrsti formaður félagsins á stofnfundinum í síðustu viku en með honum í stjórn sitja Hólmfríður Jóhanna Lúðvíksdóttir og Hafþór Snjólfur Helgason.

Markmið félagsins er, samkvæmt samþykktum, „stuðla að samfélagsþróun á Borgarfirði með áherslu á tækifæri fyrir nýja íbúa að setjast að í sveitarfélaginu. Markmiðum sínum ætlar félagið meðal annars að ná með því að veita stuðning við atvinnusköpun á svæðinu og við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis.“

Skortur á leiguhúsnæði

„Hvað húsnæðismál snertir er staðan sú að hér er hreinlega íbúðaskortur og skort á leiguhúsnæði þarf að leysa. Skapa þarf atvinnu og hugmyndirnar sem fram hafa komið í því samhengi eru meðal annars á sviði iðnaðar, tengdar því að skapa aðstæður til fjarvinnslu og nýting þeirra innviða sem byggðir hafa verið upp tengt ferðaþjónustu utan annatíma,“ segir Ásta.

„Það sem núna liggur fyrir sem verkefni félagsins er að fara lengra með þessar hugmyndir og kanna hvaða aðgerðir eru raunhæfar til að framkvæma þær,“ á fundinum voru stofnaðir vinnuhópar um net- og húsnæðismál.

Hægt er að gerast stofnfélagi fram til 17. ágúst með því að senda tölvupóst á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it., fram þarf að koma fullt nafn, kennitala og tölvupóstfang.

Mynd: Hafþór Snjólfur Helgason

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar