Verkamenn í bryggjubyggingu á Djúpavogi hlunnfarnir

djupivogurSlóvenskir starfsmenn við byggingu nýrrar bryggju á Djúpavogi eru hlunnfarnir í launum og búa við ófullnægjandi skilyrði. Sveitarfélagið heldur eftir greiðslum til að knýja á um úrbætur.

Fyrst var greint frá málinu á vef AFLs – starfsgreinafélags í gær. Samkvæmt útreikningum forsvarsmanna félagsins vantar á annað hundrað þúsund krónur á mánuði upp á að kjör starfsmanna við bygginguna standist kjarasamninga og lög. Tímakaup í yfirvinnu er sagt vitlaust reiknað, yfirvinnutímar vantaldir og ekkert álag greitt.

Starfsmennirnir búa í gáum á hafnarsvæðinu sem standast engar kröfur um aðbúnað. Lögum samkvæmt eiga starfsmenn sem vinna fjarri heimilum sínum að fá fæði hjá vinnuveitanda og fá starfsmennirnir eina heita máltíð á dag. Af þeim er dregin bæði húsaleiga og fæðisgjald. Starfsmenn Heilbrigðiseftirlits skoðuðu starfsmannaaðstöðuna í vikunni.

Í frétt AFLs segir að þeir hafi afþakkað aðkomu verkalýðsfélagsins og því sé vinnuveitenda þeirra „frjálst að halda áfram að hlunnfara þá.“ Þeir óttist uppsagnir ef þeir standi á réttindum sínum.

Djúpavogshreppur er verkkaupi en útboð verksins fór eftir skilmálum Siglingamálastofnunar sem hefur eftirlit með verkinu.

Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri, sagði í hádegisfréttum RÚV í dag að sveitarfélagið héldi eftir greiðslum til verktakans til að þrýsta á um úrbætur. Til greina komi að slíta samstarfi verði ekki bætt. Auk þess sé verkið, sem hófst í maí, komið á eftir áætlun.

Tilboð í verkið voru opnuð í febrúar. Hellu- og varmalagnir ehf. buðu lægst, 38,7 milljónir sem eru 87% af kostnaðaráætlun hönnuðar.

Í frétt AFLs er kallað eftir aukinni ábyrgð opinberra aðila við útboð verkefna og að horft sé á meira en bara tilboðsupphæðina.

„Þessir aðilar skilja síðan oftar en ekki eftir sig sviðna jörð ógreiddra verslunarúttekta, skulda við birgja og undirverktaka og hlunnfarna starfsmenn. Það er síðan verk opinberra sjóða svo sem Ábyrgðasjóðs launa að þrífa upp eftir fyrirtækin og kostnaðurinn lendir á samfélaginu öllu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar