6o ár liðin frá silfurstökki Vilhjálms Einarssonar

„Vegna smæðar byggðarlagsins kom ekki til greina að stunda neinar hópíþróttir. Það voru ekki nógu margir í neitt lið. Auk þess voru hinir fáu jafnaldrar mínir ekki sérlega hneigðir fyrir íþróttir flestir hverjir og ég einn um þær kúnstir í þorpinu lengi vel,“ segir Vilhjálmur Einarsson á Egilsstöðum, oft nefndur „silfurmaðurinn“



Þann 27. nóvember næstkomandi verða 60 ár liðin frá því Vilhjálmur Einarsson stökk 16,25 metra í þrístökki á Ólympíuleikunum í Melborne í Ástralíu og af þessu tilefni hefur verið reistur minnisvarði um þetta glæsilega afrek Vilhjálms á flötinni fyrir framan Vilhjálmsvöll á laugardaginn. Minnisvarðinn sýnir í fullri stærð lengd stökksins 16.25 metrar og ber hann heitið „Silfurstökkið“.

Stökk Vilhjálms var nýtt Ólympíumet, sem stóð í tvo klukkutíma, en þá bætti Brasilíumaðurinn Ferreira Da Silva það með stökki sínu upp á 16,35 metra í fjórðu tilraun.

Hann endaði þar með í öðru sæti og varð fyrsti Íslendingurinn til að komast á verðlaunapall á Ólympíuleikum og er hann eini íslenski einstaklingurinn sem hefur náð öðru sæti í frjálsum íþróttum á Ólympíuleikum.


Minnisvarðinn reistur að frumkvæði Hattar og Fljótsdalshéraðs

Minnisvarðinn er reistur að frumkvæði Íþróttafélagsins Hattar og Fljótsdalshéraðs. Verkið er útfært af Vilhjálmi í samvinnu við MSV og VHE. Eftirtalin fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök styrktu verkefnið:

Fljótsdalshérað, Íþróttafélagið Höttur, MSV stál & vélar, VHE vélaverkstæði, Rotarý á Egilsstöðum, Hitaveita Egilsstaða og Fella, Efla verkfræðistofa, Menntaskólinn á Egilsstöðum, Betra bak, Brúnás innréttingar, Vaskur, Keiluhöllin, Hamborgarafabrikkan, MVA, Islingua, Jónsmenn, PES vefum og hönnum, Alcoa, Ungmenna og íþróttasamband Austurlands, Ungmennafélag Íslands, Íþrótta- og ólympíusamband Íslands.

Afhjúpun minnisvarðans fer fram með athöfn laugardaginn 5. nóvember klukkan 15.00 við Hettuna á Egilsstöðum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.