Fljótsdalshérað: Rangt að starfsmaðurinn hafi verið færður til vegna gruns um harðræði

baejarskrifstofur egilsstodum 3Skólastarfsmaður, sem í sumar var sýknaður af ákæru um líkamsárás og brot á barnaverndarlögum, var ekki færður til innan skóla Fljótsdalshéraðs vegna gruns um harðræði gegn börnum í fyrra starfi.

Atvikið sem leiddi til kærunnar kom upp í fyrrahaust í Hallormsstaðarskóla, þar sem starfsmaðurinn starfaði sem deildarstjóri við leikskóladeild. Starfsmanninum var gefið að sök að hafa fært grunnskólanemanda, sem hafði verið með háreysti í matsalnum, út úr honum með valdi og meitt hann um leið. Dómur féll í málinu í sumar og var starfsmaðurinn sem fyrr segir sýknaður.

Um helgina birti Einar Ben Þorsteinsson, íbúi á Fljótsdalshéraði, bloggfærslu þar sem hann sagði að foreldrar barna í skólanum hefðu fregnað að starfsmaðurinn hefði áður verið fluttur til í starfi innan skóla sveitarfélagsins vegna „órökstudds gruns um ofbeldi gagnvart barni.“

Helga Guðmundsdóttir, fræðslufulltrúi Fljótsdalshéraðs, segir þá fullyrðingu ranga. „Ég get upplýst að það er ekki rétt að starfsmaður hafi verið færður í starfi vegna meints harðræðis í garð barna,“ sagði Helga í svari við fyrirspurn Austurfréttar í dag.

Starfsmaðurinn hafi sjálfur sótt um stöðu í skólanum á Hallormsstað og sagt upp á fyrri vinnustað þegar hann fékk hana. „Ég þekki ekki til gruns um harðræði og þaðan af síður til þess að slíkt mál hafi komið upp á fyrri vinnustað viðkomandi.“

Rétt er að taka fram að Einar breytti síðan bloggfærslu sinni og fjarlægði þá meðal annars fullyrðinguna um flutninginn og fyrra harðræðismálið.

Eftir atvikið í fyrrahaust var starfsmanninum vikið frá störfum meðan málið var rannsakað. Skipulagsbreytingar innan skólans, meðal annars vegna fækkunar nemenda, urðu síðan til þess að staða viðkomandi var lögð niður og honum sagt upp.

Í bloggfærslu Einars stendur í dag að hann og kona hans hafi staðið frammi fyrir því að þeim hafi verið sagt frá hugsanlegri vanrækslu barns þeirra á leikskóla. Þær upplýsingar hafi komið of seint.

Aðspurð segist Helga engar upplýsingar hafa um meint vanrækslumál í Hallormsstaðarskóla. Hún hafi spurst fyrir um það mál víðar en enginn kannast við það.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar