Austfirskir bændur smala fé sínu niður af fjöllum af ótta við óveður

lombAustfirskir bændur hafa varan á sér eins og kollegar þeirra á Norðurlandi og eru farnir að smala fé sínu til að koma því í skjól undan aftakaveðri sem spáð er um helgina.

Vopnfirðingar eru farnir í Mælifellsheiði fyrr en áætlað var og Fljótsdælingar fóru í morgun upp á heiði til að smala undir Fellum og ráðgera að fara inn í Rana á morgun.

Aðaltilgangur Austfirðinganna er samt að koma fénu ofan af háheiðinni og niður á svæði þar sem útlit er fyrir að veður verði skárra frekar en reka það alla niður í byggð og rétta.

Féð virðist almennt frekar ofarlega á fjöllum enda sumarið verið mjög gott og vart enn komið hret sem hrakið hefur kindurnar heim á leið.

Nokkurt tjón varð á bústofni Austfirðinga þegar aftakaveður gerði fyrstu helgi septembermánaðar fyrir ári en þó ekki í líkingu við það sem varð á Norðurlandi.

Veðurstofan spáir norðvestan 18-23 m/s með rigningu og snjókomu ofan við 200-300 metra yfir sjávarmáli seinni part föstudags og á laugardag. Búist er við að sunnanáttir verði ríkjandi á ný eftir helgina.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar