Forsætisráðherra: Mikil tækifæri í uppbyggingu á Austurlandi í þjónustu við olíufyrirtæki
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, telur Austfirðinga eiga mikil tækifæri í uppbyggingu þjónustu við gas- og olíuleitarfyrirtæki. Siglingar um norðurslóðir geti enn frekar eflt svæðið. Lykilatriði sé samt að menn standi saman um að fá þjónustuna til landsins.Þetta kom fram í erindi ráðherrans sem flutt var á málþingi samtakanna Landsbyggðin lifir á sunnudag. Það var þó aðstoðarmaður hans, Jóhannes Þór Skúlason, sem flutti erindið en Sigmundur Davíð lá heima með flensu.
Í erindi sínu lagði ráðherrann meðal annars út frá hugsanlegri olíuleit. Hann benti á að undanfarin ár hefur um helmingur allra nýrra olíufunda í heiminum verið á djúpsægi og að orkuspár geri ráð fyrir að orkunotkun í heiminum þrefaldist á næstu tveimur áratugum. Hæpið sé að þeirri þörf verði alfarið mætt með endurvinnanlegum orkugjöfum. Þess vegna vilji ríkisstjórnin stuðla að nýtingu hugsanlegra olíulinda á Drekasvæðinu.
„Slík leit er eitthvað nýtt fyrir okkur íslendinga. Þar liggja gríðarleg tækifæri og enn meiri ef olía eða gas finnst. Mikilvægt er að hanna rétta umhverfið og skipuleggja þegar verið er að stíga fyrstu skrefin í nýrri atvinnugrein.“
Sigmundur nefndi sem dæmi miklar breytingar á borginni Aberdeen í Skotlandi sem hefði eflst eftir að borgarbúar ákváðu að sérhæfa sig í þjónustu við fyrirtæki í olíuvinnslu.
„Því liggur það ljóst fyrir að í leitinni og þjónustu við hana liggja mikil tækifæri til enn frekari uppbyggingar atvinnulífs og samfélags á Austurlandi sem og öllu Íslandi.
Þau tækifæri hanga saman við opnun norð-austur siglingarleiðarinnar og geta, ef vel er á haldið, breytt miklu fyrir okkur. Þar er grunnatriði að við vinnum saman að því að fá verkefnin til Íslands.“
Bent var á að hagtölur væru Austurlandi hagstæðar. Atvinnuleysi, menntunarstig, útsvar, íbúaþróun og hagvöxtur yfir ofan landsmeðaltal. „Samkvæmt öllum hagtölum á Austurland að vera góður staður að búa á. En við þurfum auðvitað ekki hagtölur til að segja okkur það.“
Sigmundur sagði samvinnu nauðsynlega til að menn næðu árangri. Dæmi um slíkt væri stofnun Austurbrúar sem tæki við hlutverki þeirra stoðstofnanna sveitarfélaganna sem fyrir voru. Fleiri landshlutar virðist ætla að fylgja því fordæmi þótt enginn hafi enn gengið jafn langt. Stærri skipulagsheildir eigi samt að ráða við flóknari verkefni sem sé þá hægt að flytja heim í hérað.
Í ræðunni var einnig komið inn á stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum. Sigmundur segir að þar sé lögð áhersla á að færa valdið meira í hendur heimamanna og tryggja aðkomu allra ráðuneyta að málaflokknum.
„Samskipti ríkis og einstakra landshluta um verkefnafé og áherslur hafa hingað til verið bundnar u.þ.b. 200 samningum eða skyndisamráði um sértækar aðgerðir. Í stað fjölmargra samninga margra ráðuneyta við fjölmarga aðila í landshlutunum er það markmiðið að ein fjárveiting komi til hvers landshluta.
Útfrá þeim fjármunum mótar samráðsvettvangur landshlutans, sem landshlutasamtökin halda utan um og kæmi í stað hinna ýmsu stjórna og nefnda í eldra skipulagi, sóknaráætlun landshlutans sem forgangsraðar fénu í verkefni og jafnvel bætir við verkefnin öðru fjármagni t.d. frá atvinnulífinu. Samningar eru svo gerðir á milli landshlutanna og fjármála- og efnahagsráðuneytis sem felur stýrineti Stjórnarráðsins að halda utan um útfærslu samningana.“