Forstjóri ISAVIA: „Menn koma ekki til að horfa á flugstöðvar“

bjorn oli hilmarsson isaviaAustfirðingar verða að standa saman að markaðssetningu á fjórðungnum til ferðamanna ætli þeir að búa til alþjóðlega farþega umferð um flugvöllinn á Egilsstöðum. Möguleikarnir til þess liggja víða.

Þetta er mat Björn Óla Hilmarssonar, forstjóra ISAVIA sem rekur flesta stærri flugvelli landsins, en hann hélt erindi á málþingi samtakanna Landsbyggðin lifi á Egilsstöðum á sunnudaginn var.

Hann rifjaði upp sögu frá byggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar þar sem menn hafi haldið því fram að stöðin yrði svo glæsileg að ferðamenn myndu flykkjast til landsins til að skoða hana. Það hafi verið fjarri sanni.

„Menn koma ekki til að horfa á flugstöðvar. Við megum ekki hugsa um hvernig við seljum flugvöllinn heldur hvernig við seljum Austurland. ISAVIA hugsar ekki bara um að reka flugvöllinn heldur leitar eftir samstarfi við aðra um nýtingu hans.“

Björn Óli segir menn hafa rætt ýmsa möguleika varðandi nýtingu vallarins. Ekkert mál væri að fylla fragtvélar frá Egilsstöðum en stærra mál er hvað ætti að vera í þeim til landsins. Ferjuflug og einkaflug hafi einnig verið skoðað.

Farþegaflug er samt það sem þykir mest heillandi. Björn Óli segir ISAVIA fara út tvisvar á ári og kynna Egilsstaðaflugvöll á alþjóðlegum kaupráðstefnum. Lykilforsendan sé samt að búa til aðdráttarafl fyrir ferðamennina.

„Flugvöllurinn getur ekki búið til strúktúrinn til að draga ferðamennina inn á svæðið. Það verðið þið heimamenn að gera. Menn verða að spyrja sig spurninga eins og hvort hér sé nógu mikið af þjónustu sem getið tekið á móti nógu mörgum? Eru menn tilbúnir að vinna saman að markaðssetningu því það er slagur um hverja einustu flugvél? Fyrst er að ná í flugvélina og ef þú nærð í vél þá færðu ferðamenn.

Það verður að koma til stóraukin samstaða til að fá ferðamenn hingað. Kakan getur verið stór en þar þarf að baka hana áður en hún er skorin og étin. Austurland hefur mikla möguleika en menn verða að setjast niður og ræða saman um hvað þurfi til að fá ferðamenn inn á svæðið.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar