Hræddir ferðamenn leita skjóls á Djúpavogi: Allt gistirými uppurið

djupi 16092013 4Nær allt gistirými á Djúpavogi er uppbókað í kvöld en ferðamenn hafa þar leitað skjóls undan veðurofsanum. Formaður björgunarsveitarinnar Báru segir að viðbragðsaðilar verði að koma sér saman um aðgerðir til að koma í veg fyrir að ferðafólk leggi út í veður sem þetta.

„Það er búið að vera snarvitlaust veður í dag í Hamarsfirði og Berufirði,“ segir Reynir Arnórsson, formaður björgunarsveitarinnar á Djúpavogi. „Það er búið að vera mjög hvasst í allan dag og er enn.“

Um kvöldmatarleytið barst beiðni frá lögreglunni um að björgunarsveitin tæki á sér gæslu við vegamótin að Djúpavogi og kæmi í veg fyrir að vegfarendur úr austri færu lengra. Björgunarsveitarmenn standa því vaktina við veginn inn í Hamarsfjörð fram eftir kvöldi.

Tveggja metra snjóskafl á Öxi

Reynir segir björgunarsveitina hafa haft nóg að gera frá hádegi. Fjórar beiðnir hafi borist um aðstoð og eitt útkall vegna bíls sem sat fastur á Öxi. Aðrir ferðalangar náðu að losa hann.

Laust fyrir klukkan sjö komu björgunarsveitarmenn aftur í hús en þeir höfðu farið upp á Öxi til að horfa eftir bíl sem sást leggja á heiðina um klukkan þrjú í dag. Ákveðið var að fara til öryggis þar sem bíllinn sást ekki á teljurum Vegagerðarinnar. „Strákarnir komust upp á topp en voru þá komnir í tveggja metra háan skafl og fóru ekki lengra.“

Stoppuðu húsbíl á leið inn í Hamarsfjörð

Snarpasta hviðan á veðurmælinum í Sandbrekku í Hamarsfirði í dag mældist 70,5 m/s. Hviður upp á 50-60 m/s hafa mælst þar reglulega síðan í gærmorgun og meðalvindhraðinn verið vel yfir 30 m/s. Klæðning flettist þar af veginum og vegrið lét undan veðurofsanum.

Reyni finnst merkilegt hversu áræðið ferðafólk er að leggja af stað út í veðurhaminn. „Við vorum í sambandi við bændur suður í sveit sem stoppuðu húsbíl niður á þjóðvegi eftir hádegi í dag á leið inn í Hamarsfjörð. Ef menn eru svo heimskir að fara Hamarsfjörðinn vitandi að þar nær vindhraðinn 50-60 m/s í hviðum þá er ekki af sökum að spyrja.“

Ferðamenn koma grátandi af hræðslu inn á hótelið

Leiðin frá Djúpavogi suður í Lón hefur verið merkt ófær í kortum Vegagerðarinnar í allan dag og skilti þessu til áréttingar með merkingunni „ÓFÆRT“ standa við veginn. „Það er spurning hvað hægt sé að gera til að stoppa menn af.“

Fjöldi ferðamanna hefur leitað skjóls á Djúpavogi á meðan veðrið gengur yfir. Nær allt gistirými er þar uppurið „Okkur er sagt að fólk hafi komið grátandi inn á hótelið af hræðslu. Það virðist ekki skilja ábendingar um veðurofsann. Meirihlutinn eru erlendir ferðamenn en Íslendingarnir eru ekkert betri. Þeir ættu þó að vera búnir að læra nógu mikið til að geta lesið að það sé ófært.“

Ekki ljóst hver ber ábyrgð á að stöðva fólkið

Ekki virðist leika á hreinu hver beri ábyrgð á því að hemja ferðafólkið. „Við höfum talað við Vegagerðina sem bendir á lögregluna sem aftur bendir á Vegagerðina. Björgunarsveitirnar, lögreglan og Vegagerðin verða að fara að tala saman um hvernig bregðast eigi við svona aðstæðum.

Við í björgunarsveitunum kvörtum ekki undan því að vera kölluð út en við óttumst að þetta endi með alvarlegu slysi. Þeir sem fara til að aðstoða eru líka í hættu, eins og strákarnir sem fóru upp á Öxi í snarvitlaust veður.“

Línuveiðibáturinn Sturla GK hefur lónað úti fyrir Djúpavogi í allan dag en hann kemst ekki að bryggju sökum veðurs. Ekki borgar sig fyrir hann að fara annað því bílarnir, sem sækja eiga fiskinn, eru veðurtepptir á Djúpavogi.

Veðurstofan varar við norðan hvassviðri eða stormi fram á nótt. Hringvegurinn er lokaður frá Jökuldal í austri að Mývatni í norðri. Ófært er um Vopnafjarðarheiði, Hellisheiði og Sandvíkurheiði. Þungvært er um Fjarðarheiði, snjóþekja á Fagradal, þæfingur um Breiðdalsheiði og hálkublettur yfir Oddsskarð.

Myndir: Ólafur Björnsson og Skúli Benediktsson
djupi 16092013 1djupi 16092013 2djupi 16092013 3djupi 16092013 5

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar