Fjórar aukavélar til Egilsstaða í dag: Vel gengur að vinna upp tafir á flugi
Flugfélag Íslands flýgur í dag fjórar auka ferðir á milli Egilsstaða og Reykjavíkur til að vinna upp þær tafir sem orðið hafa á flugi vegna veður síðastliðna tvo daga.Farþegaflug lá niðri frá Egilsstaðaflugvelli í gær og fyrradag en afar hvasst hefur verið á Austurlandi síðustu daga. Um 180 farþegar biðu því eftir flugi í gærkvöldi. Hluti farþeganna hafði samt komist á áfangastað eftir öðrum leiðum eða hætt við flugið.
Að sögn Þórðar Björnssonar, þjónustustjóra Flugfélags Íslands á Reykjavíkurflugvelli, hefur gengið vel að vinna upp tafirnar. Fjórar aukaferðir voru farnar til Egilsstaða í dag auk þess sem laus sæti í áætlunarvélum dagsins, sem voru þrjár, voru nýtt.
Síðasta aukavélin fer í loftið um klukkan hálf þrjú en ein áætlunarflugvél kemur austur um kvöldmatarleytið.