Melarétt frestað til sunnudags: Hætt við að einhver fjöldi fjár sé grafinn í fönn

lombMelarétt í Fljótsdal hefur verið seinkað um sólarhring vegna þess hve hægt hefur gengið að smala. Göngumenn í Rana á Fljótsdalsheiði hafa fundið dautt fé í fönn eftir veðuráhlaupið sem gerði í byrjun vikunnar.

Ranamenn hafa fundið tíu dauðar kindur og eins kindur lifandi í fönn. Færið í snjónum er þungt bæði fyrir menn og kindur. Veður og skyggni á svæðinu hefur hins vegar verið ágætt síðustu tvo daga.

„Sumt hafði króknað í bleytu. Það fundust til að mynda tvær kindur frá mér dauðar og sá sem fann þær taldi að lömbin hefðu staðið ofan á ánum og bjargað sér þannig,“ sagði Eyjólfur Ingvason, bóndi á Melum í Fljótsdal í samtali við vefútgáfu Bændablaðsins í dag.

Göngumenn gista í nótt í Fjallaskarði. Keyrðar voru þrjár ferðir með alls 180 kindur í dag þaðan og austur í Fljótsdal en einar tvær ferðir þarf á morgun. Þá er áformað að smala út í Klaustursel. „Þetta tekur tíma og er þolinmæðisverk. Það er hætt við að einhver fjöldi fjár sé grafinn í fönn,“ segir Eyjólfur.

Af þessum sökum hefur Melarétt í Fljótsdal, sem vera átti á laugardag, verið frestað til sunnudags. Réttin sjálf hefst klukkan 13:00 en rekstur úr safnhólfi klukkan 11:00.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar