Trauðla hlutverk Vegagerðarinnar að „hemja“ ferðafólk

djupi 16092013 4Vegagerðin vinnur að mótun verklagsreglna um allt land til að koma í veg fyrir að ferðamenn fari um vegi sem eiga að heita ófærir. Merkingum á ljósaskiltum var í vikunni tímabundið breytt á ensku til að reyna að koma í veg fyrir ferðafólk færi sér að voða.

„Við gerum hvað við getum til að koma upplýsingum á framfæri og þar er hlutverk fjölmiðla stórt en vandræði skapast vegna ferðamanna sem ekki skilja íslensku, eðlilega. En það er hinsvegar trauðla hlutverk Vegagerðarinnar að "hemja" ferðafólk,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.

Reynir Arnórsson, formaður björgunarsveitarinnar Báru á Djúpavogi, gagnrýndi í vikunni að svo virtist sem óljóst væri hverjir bæru ábyrgð á að loka vegum sem ófærir væru vegna veðurs. Á mánudagskvöld var sveitin beðin um að sinna gæslu á veginum inn í Hamarsfjörð þar sem var snælduvitlaust veður.

Hann sagði að lögreglan og Vegagerðin bentu hvor á aðra þegar upp kæmu aðstæður eins og á mánudaginn. Úr því þyrfti að bæta.

G. Pétur segir að lokanir þurfi að fara fram í samráði lögreglunnar og Vegagerðarinnar. „Við höfum unnið skýrar verlagsreglur um þetta til dæmis fyrir Hellisheiðina og Þrengslin og Súðavíkurhlíð og erum að vinna í því að útfæra þessar reglur á landsvísu. „

Erfiðast hefur gengið að koma skilaboðum um yfirvofandi óveður og ófærð til erlendra ferðamanna. Það verkefni verður enn erfiðra með aukinni vetrarferðamennsku.

Í byrjun vikunnar kynnti Vegagerðin að til stæði að setja upp vegslár á nokkrum stöðum á landinu til að hægt væri að loka vegum sem ferðamenn ættu leið yfir, sérstaklega fjallvegi.

Þá var skilaboðum á ljósaskiltum breytt úr „ÓFÆRT“ yfir í „CLOSED“ á ensku. Tilraun verður gerð með það til bráðabirgða en unnið er að lausn til frambúðar þannig að hægt verði að birta tilkynningar á skiltunum bæði á íslensku og ensku.

Skemmdir urðu á veginum í Hamarsfirði í vikunni í miklum stormi. Mynd: Skúli Benediktsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar