Veðurfræðingur: Sennilega tilviljun að þessi hörðu haustveður komi með árs millibili
Vindhviðan sem mældist í Hamarsfirði upp á rúma 70 metra á sekúndu í byrjun vikunnar er sennilega ein sú snarpasta sem mælst hefur á Íslandi í septembermánuði. Hausthvellir eru þó alls ekki nýir af nálinni. Veðurfræðingur telur líklegra að tilviljun ráði því að akkúrat ár er á milli tveggja slíkra á Austurlandi frekar en að um varanlega breytingu sé að ræða í veðurkerfum.„Sennilega er það tilviljun að þessi hörðu haustveður komi með árs millibili, en það er svo sem hægt að fara í djúpar skýringar á þessu og velta vöngum yfir því hvort hlýnað hafi yfir sjónum á N-Atlantshafi suður af Íslandi og þegar aukin hlýindi með tilheyrandi raka kemst í vega fyrir kólnandi haustloftið hér norður og vesturundan verður hvellurinn meiri en annars hefði orðið,“ segir Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Veðurvaktinni. Hann tekur þó fram að þetta séu kenningar sem ekki hafi verið rannsakaðar ítarlega.
Aftakaveður gerði á Austurlandi í byrjun vikunnar. Inn til landsins snjóaði verulega og ljóst er að fé drapst á afréttum. Sunnar í fjórðungnum voru snarpir vindar sem gerðu ferðafólki erfitt fyrir.
Snarpasta hviðan mældist upp á 70,5 m/s í Hamarsfirði og segir Einar það sennilega snörpustu hviu sem mælst hafi hérlendis í september. Hafa verið þó í huga að hviðumælingar eins og þær þekkist í dag nái ekki lengra aftur en 10-15 ár. Þá hafi veðurstöðinni í Hamarsfirði verið valinn staður þar sem vitað væri að strengurinn í norðvestan-áttinni yrði hvað harðastur.
Einar segir að veðrinu nú hafi svipað til þess sem gekk yfir landið snemma í september í fyrra en skaðinn þá varð mestur á Norðurlandi.
„Lægðarmiðjan var aðeins austar nú og þar með einnig mestur þungi vindsins og úrkomunnar, sem nú var mestur á norðanverðum Austfjörðum. Hvergi þó meiri en á Seyðisfirði þar sem úrkoman mældist í heildina 140 mm. Það er mikið en alls ekki einsdæmi því oft getur rignt hressilega á Austfjörðum síðla sumars og að haustlagi.“
Einar minnir þó á að hausthvellir sem þessir séu ekki eindæmi. Um miðjan september 2004 gerði aftakaveður í sunnan Vatnajökuls þar sem miklar skemmdir urðu á hótelinu í Freysnesi. „Fannfergi og ófærð á vegum þetta snemma haustsins er þó vissulega fátítt , að minnsta kosti í seinni tíð.“