Karl var einstaklingur sem gerði ekki flugu mein

karl jonsson galtastodum3Vinkona Karls Jónssonar frá Galtastöðum fram segist hafa verið slegin þegar upp á hann voru bornar sakir fyrir dómi um að hann hefði girnst börn. Hann hafi verið gestkomandi á heimili hennar þar sem börn voru fóstruð og aldrei af sér neina hegðun sem benti til þess.

„Þetta var einstaklingur sem gerði ekki flugu mein, hjálpsamur og indæll drengur,“ sagði Ingibjörg Sigurðardóttir við framhald aðalmeðferðar vegna morðsins á Karli í maí.

Við fyrri hluta aðalmeðferðarinnar ásakaði Friðrik Brynjar Friðriksson, sem ákærður er fyrir morðið, Karl um að hafa lýst yfir girnd sinni til tæplega ársgamallar dóttur Friðriks Brynjars.

„Þetta sló mig mjög illa þegar ég heyrði þetta. Ég tel að þetta eigi ekki við nein rök að styðjast,“ sagði Ingibjörg.

Í skýrslu hennar fyrir dómi í dag sagði hún að Karl hefði verið náinn vinur hennar og manns hennar og gjarnan komið í heimsókn á heimili þeirra. Þar hafi verið börn og unglingar á ýmsum aldri.

„Nei, ég mótmæli þessu eindregið. Þetta er ekki satt. Það hefði verið búið að koma í ljós. Ég hef gengist fólk sem hefur ýmsa hegðunareiginleika. Ég hefði átt að vera búin að sjá það.“

Ingibjörg sagðist ekki vitað til þess að Karl hefði átt sér óvildarfólk eða staðið í útistöðum við fólk. Hann hefði ekki umgengist yngra fólk nema í gegnum grunnskólaárin.

Hún vissi heldur ekki til þess að mikill gestagangur hefði verið hjá Karli. „Við hjónin heimsóttum Karl. Heimili hans var nánast orðið eins og heimili mitt.“

Lögregla rannsakaði ásakanir Friðriks Brynjars í garð Karls. Ekkert fannst sem studdi þær þrátt fyrir ítarlega leit í þeim húsakynnum þar sem hann hélt til né eftir samtöl við fólk sem þekkti til Karls.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar