Ákærður fyrir að draga annan mann út úr bíl á hárinu
Lögreglustjórinn á Eskifirði hefur ákært karlmann á fertugsaldri fyrir að hafa dregið rúmlega tvítugan karlmann á hárinu út úr bifreið sinni. Sá maður er á móti ákærður fyrir að hafa slegið árásaraðilann.Mennirnir tveir lentu í stympingum utan við íbúð eldri mannsins í fyrrahaust. Sá eldri er ákærður fyrir að hafa tekið í hár þess yngri og dregið hann út úr bíl sínum, tekið hann hálstaki og síðan löðrungað hann þannig hann fékk glóðarauga.
Sá yngri er ákærður fyrir að hafa svarað fyrir sig með að hafa nefbrotið þann eldri með hnefahöggi. Ákærunni fylgir einkaréttarkrafa þar sem farið er fram á rúmar 400.000 krónur í skaðabætur fyrir höggið.