Sjö tíma björgunaraðgerðir: Fóru til að bjarga húsbíl en enduðu á að redda rútum
Björgunarsveitarmenn frá Fljótsdalshéraði og Seyðisfirði stóðu í ströngu í gærkvöldi þegar selflytja þurfti hundruð ferðamanna af Fjarðarheiði niður á Seyðisfjörð í ferjuna Norrænu. Þrjár stórar rútur sátu þar fastar í mikilli hálku.Björgunarsveitirnar voru kallaðar út um klukkan sex í gærkvöldi til að aðstoða húsbíl sem farið hafði út af veginum yfir Fjarðarheiði. Á meðan björgunarsveitarmenn voru að bjarga bílnum komu þrjár rútur með þýskum ferðamönnum upp á heiðina í viðbót.
Ferðamennirnir voru í dagsferð um héraðið og voru alls á níu rútum en þær fyrstu sex komust áfallalaust yfir heiðina. Seinni partinn gekk í slyddu í byggð en á heiðinni kólnaði og frysti þannig að flughálka myndaðist á veginum sem rúturnar voru engan vegin búnar undir.
Bílstjórarnir treystu sér ekki niður til Seyðisfjarðar með rúturnar fullar en um 70 farþegar voru í hverri þeirra. Farþegarnir voru selfluttir til Seyðisfjarðar með björgunarsveitarbílum og tveimur minni rútum frá Seyðisfirði.
Hluti farþeganna var orðinn nokkuð skelkaður og fóru því félagar úr Rauða krossinum um borð í ferjuna til að veita fólkinu áfallahjálp.
Rútunum var komið á keðjur þegar búið var að tæma þær og þeim ekið til Seyðisfjarðar. Björgunaraðgerðunum lauk um klukkan eitt í nótt, sjö tímum eftir að þær hófust.
Myndir: Nikulás Bragason