Vorblíða á Austfjörðum í dag: Rúmlega tuttugu stiga hiti á Kollaleiru í kvöld

seydisfjordurÓvenju hlýtt var í veðri á Austfjörðum í dag miðað við að kominn sé tíundi október. Ríflega tuttugu stiga hiti mældist á Kollaleiru í Reyðarfirði á níunda tímanum í kvöld. Á Seyðisfirði lögðu menn vetrarúlpunum fyrir léttari yfirhafnir.

„Það er vorblíða, veðrið hefur verið rosagott í dag. Fólkið sprettur upp með hunda út að ganga,“ sagði Eva Björk Jónudóttir, íbúi á Seyðisfirði. Þar mældist 17 stiga hiti um miðjan dag.

„Menn draga aftur upp vestin sín og fara út á flíspeysunni. Þetta er hálf súrrealískt veður miðað við það sem við höfum upplifað undanfarin ár.“

Í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað var tækifærið nýtt til að fara með nemendur í náttúrufræði í útikennslu. Hitinn komst þar í 18,6°C í dag.

Mesti hiti á landinu mældist hins vegar á Kolluleiru í Reyðarfirði á níunda tímanum í kvöld, 20,3°C. Næst mestur varð hitinn á Eskifirði, 19,1°C..

Á veðurstöðvum á hálendinu var mesti hiti á Þórdalsheiði, 16,5. Á Eyjabökkum komst hitinn í 15,4°C og 15 gráður í Oddsskarði.

Spáð er áframhaldandi sunnanátt og hlýindum fram á laugardag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar