„Á Dögum myrkurs njótum við þess að vera saman“

Hátíðin Dagar myrkurs verður haldin á Austurlandi 30. október - 3. nóvember. Að venju verður mikið um að vera á þessari sameiginlegu byggðahátíð allra íbúa á Austurlandi.  Markmiði hátíðarinnar er að leggja áherslu á viðburði sem hvetja til samveru íbúa. 

 

Hátíðin hefur verið haldin árlega frá síðustu aldamótum og var upphaflegur tilgangur hennar að bjóða upp á afþreyingu í skammdeginu en eins og allir vita getur veturinn á Íslandi verið langur og dimmur. Byggðahátíðin er fyrst og fremst hugsuð fyrir íbúa en allir sem áhuga hafa eru hjartanlega velkomnir. 

 „Á Dögum myrkurs njótum við þess að vera saman, við lyftum okkur upp, leikum okkur með alls konar þemu sem tengjast myrkrinu eins og t.d. drauga, vættir, rómantík, forna siði og venjur,“ segir Halldóra Dröfn hjá Austurbrú en hún er verkefnastjóri hátíðarinnar að þessu sinni. 

Halldóra segir að hátíðin eigi sér í raun djúpar rætur því hún hefur sterka tengingu við íslenska og keltneska siði frá fornri tíð.  „Það vakti talsverða athygli þegar atvinnu- og menningarmálafulltrúi sveitarfélagsins lagðist í rannsóknarvinnu og komst að því að rekja má uppruna Hrekkjavöku, sem haldin er 31. október, til Kelta. Til forna færðu þeir þakkir fyrir uppskeru sumarsins og kölluðu hátíðina sína „hátíð hinna dauðu“. Sambærileg hátíð var haldin á Íslandi fyrir kristnitöku er kölluð var „Veturnætur".

Terry Gunnell þjóðfræðingur hefur bent á að Hrekkajvökuhátíðin eigi sér þannig í raun íslenskan uppruna. Þessi keltneska/íslenska hátíð fluttist síðan til vesturheims með Keltum og þekkjum við hana í dag sem Hrekkjavöku. Djúpavogsbúum þótti því tilvalið að tvinna saman fornum hefðum Hrekkjavökunnar/Vetrarhátíðar við byggðahátína Daga myrkurs og tókst ansi vel til og vakti þessi tenging nokkra athygli,“ segir Halldóra. 

Skipuleggjendur Daga myrkurs eru enn trú markmiði hátíðarinnar og að venju verður boðið upp á fjölbreytta og skemmtilega dagskrá um allan fjórðung. 

Halldóra hvetur íbúa Austurlands til að taka virkan þátt í Dögum myrkurs sem er sameiginleg byggðahátíð alls Austurlands. Finna ítarlegri lýsingar á viðburðum á heimasíðum sveitarfélaganna, Facebook og Instagram. Hún tekur einni fram að auðvitað eru allir velkomnir, ekki bara íbúar Austurlands.

Hér má finna Facebook síðu hátíðarinnar.

 

Dagar myrkur á Djúpavogi.  Myndina tók Andrés Skúlason.

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.