„Að sjálfsögðu er eini raunverulegi kosturinn að hækka verðin“

Forstjóri Íslandspósts telur ósanngjarnt að útgefendur héraðsfréttablaða beini spjótum sínum að fyrirtækinu fyrir ákvörðun þess að afnema sérstaka gjaldskrá um dreifingu blaða- og tímarita. Ákvörðunin hafi verið tekin algjörlega á viðskiptalegum forsendum og út frá samkeppnissjónarmiðum.

Íslandspóstur tilkynnti í síðustu viku um breytingar á þjónustu sinni. Annars vegar mun fyrirtækið hætta að dreifa fjölpósti á höfuðborgarsvæðinu og næstu þéttbýlissvæðum, hins vegar leggja niður sérstaka verðskrá fyrir dreifingu á blöðum og tímaritum.

Breytingarnar ganga í gildi 1. maí. Að fella niður hina sérstöku verðskrá blaða og tímarita þýðir að dreifingarkostnaður héraðsfréttablaða, þar með talið Austurgluggans sem líkt og Austurfrétt er gefinn út af Útgáfufélagi Austurlands, hækkar um 25-30%.

Breytingarnar hafa því verið gagnrýndar af útgefendum héraðsfréttablaða, þar með talið talsmönnum Útgáfufélags Austurlands. Á það hefur verið bent að í tilfelli félagsins geti aukinn kostnaður við dreifingu Austurgluggans numið nærri því sem komið hefði í hlut félagsins verði frumvarp menntamálaráðherra um ríkisstuðning við einkarekna fjölmiðla að lögum.

Skylda að reka póstinn á sem hagkvæmastan máta

Í tilkynningu sem Birgir Jónsson, forstjóri Íslandspósts, sendi frá sér í gær hafnar hann því að breytingar póstsins séu settar í þetta samhengi. Hann bendir á að rekstur póstsins í opinberu hlutafélagi þýði að þótt það sé alfarið í eigu íslenska ríkisins sé rekstur og ákvarðanataka þess, þar með talið verðbreytingin, alfarið á viðskiptalegum grunni.

„Pólitískar áherslur á hverjum tíma skipta þar engu máli. Það er því ekki hlutverk stjórnar og stjórnenda fyrirtækisins að hugsa um neitt annað en að félagið sé rekið á sem hagkvæmastan og ábyrgastan máta og skili ríkinu hámarks arðsemi á sama tíma og þjónusta við viðskiptavini er í forgrunni.“

Endurskipulagning eftir erfið ár

Samkvæmt nýjasta ársreikningi Íslandspósts, sem er fyrir árið 2018, tapaði fyrirtækið rúmum 292 milljónum það ár. Í lok þess árs samþykkti Alþingi að veita því 0,5 milljarða í lán eða leggja til 1,5 milljarð í hlutafé til að greiða úr vanda sínum. Í Morgunblaðinu í dag er haft eftir Birgi, sem tók til starfa um mitt síðasta ár, að til betri vegar horfi í rekstri hlutafélagsins.

„Það er ljóst að Pósturinn hefur verið í umtalsverðum taprekstri undanfarin ár og í þeirri endurskipulagningu sem nú fer fram er öllum steinum velt við til þess að umbreyta fyrirtækinu og koma því á fast land,“ segir hann í yfirlýsingu sinni.

„Pósturinn hefur um árabil haft sérstaka verðskrá sem gildir um dreifingu á blöðum og tímaritum. Þessi verðskrá gefur útgefendum mun lægri verð á dreifingu en hægt er að réttlæta miðað við þann kostnað sem fellur til við dreifinguna. Almennar verðhækkanir á markaði, kjarasamningum og öðru hafa sömu áhrif á Póstinn og önnur fyrirtæki á Íslandi og eðli málsins samkvæmt eykst því alltaf þrýstingurinn á verðhækkanir.“

Ríkið ekki tilbúið að styðja við sérstaka verðskrá

Birgir bendir einnig á að Íslandspósti sé þröngur stakkur sniðinn vegna samkeppnissjónarmiða. Ný lög um póstþjónustu hafi einnig áhrif.

„Pósturinn er einnig undir smásjá eftirlitsstofnana og er, eins og öðrum fyrirtækjum í sömu stöðu, óheimilt að stunda hverskyns niðurgreiðslur eða að selja þjónustu undir kostnaðarverði. Kostirnir sem Pósturinn hefur í þessu máli eru annað hvort að hækka verðskrána eða hætta á að fá á sig ákærur fyrir brot á samkeppnislögum. Að sjálfsögðu er eini raunverulegi kosturinn þá að hækka verðin.

Um áramótin síðustu tóku ný póstlög gildi. Á sama tíma féll einkaréttur Íslandspósts niður, viðræður við ríkið standa yfir um gerð þjónustusamnings um póstþjónustu á svæðum sem ekki standa undir sér í samkeppnisumhverfi, eins og t.d. í dreifbýli.

Í þessum viðræðum hefur Pósturinn bent viðsemjendum sínum á nokkur mál sem standast illa skoðun í almennum rekstri, má þar meðal annars nefna útgáfu á frímerkjum og svo þessi tiltekna verðskrá fyrir blöð og tímarit.

Afstaða viðsemjenda hefur verið skýr, ríkið mun ekki niðurgreiða eða bæta Póstinum það tap sem verður til við það að halda úti þessari starfsemi eins og þessari sértæku verðskrá fyrir blöð og tímarit. Þá er lítið annað að gera en að hækka verðin svo að verðlagningin standist skoðun og fylgi lögum og það er það sem var gert.“

Ekki Íslandspósts að styðja við héraðsfréttamiðla

Birgir vísar því algjörlega á bug að um pólitískt mál sé að ræða eða aðrar forsendur en þær sem hann hafi nefnt. Það sé ekki hlutverk Íslandspósts að styðja við héraðsfréttamiðla.

„Ef útgefendur héraðsfréttamiðla eða aðrir vilja sækja ríkisaðstoð þá er það ekki hlutverk Íslandspósts að veita hana frekar en annarra fyrirtækja á markaði og því er varla sanngjarnt að fyrirtækið sé úthrópað með þeim hætti sem nefnt er hér að framan.

Pósturinn mun veita þessum viðskiptavinum sínum sína allra bestu þjónustu hér eftir sem hingað til og vonast eftir skilningi þeirra á þessu erfiða máli.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.