Aðeins tekið upp á flugi yfir hafi

Eftirlitsflygildi, sem staðsett er á Egilsstaðaflugvelli á vegum Landhelgisgæslunnar, tekur ekki upp myndefni þegar flogið er yfir landi. Íbúar í næsta nágrenni flugvallarins hafa verið hugsi yfir umfangi eftirlitsins.

Nokkuð hefur borið á fyrirspurnum íbúa í Fellabæ og Egilsstöðum um heimildir flygildisins en þeir hafa lýst því sem svo að flygildið hafi sveimað yfir húsagörðum í þéttbýlinu. Af þessu hafa skapast umræður um hversu miklar heimildir séu fyrir fluginu og myndbandsupptökum úr því.

Í svari við fyrirspurn Austurfréttar, segir Auðunn Kristinsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar, að allar nauðsynlegar heimildir séu til staðar fyrir fluginu.

„Um er að ræða löggæslu og eftirlitsflug á hafinu við Ísland og er aðeins verið að taka upp þegar vélin er við eftirlit, þ.e. eingöngu þegar hún er á flugi yfir hafinu.

Eðli málsins vegna er hinsvegar kveikt á myndavélunum við flugtak og lendingu svo flugmenn vélarinnar geti flogið henni, en þá er aftur á móti ekki verið að taka upp neitt myndefni,“ segir Auðunn.

Það myndefni sem tekið sé upp við eftirlit er vistað hjá gæslunni og rekstraraðila flygildisins. „Með það er farið í samræmi við lög og reglugerðir um persónuvernd.“

Flygildi hefur verið staðsett á Egilsstöðum frá því um miðjan apríl. Það átti að vera staðsett þar í um þrjá mánuði sem þýðir að veru þessu lýkur seinni hluta júlí.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar