Aðstaða til íþróttaiðkunar afar slæm á Eskifirði

Íþrótta og tómstundanefnd Fjarðabyggðar tók fyrir erindi frá aðalstjórn Austra á síðasta fundi sínum. Stjórn Austra vill að farið verði í breytingu á deiluskipulagi svo hægt verði að bæta aðstöðu til íþróttaiðkunar í bæjarkjarna Eskifjarðar.

 

Samkvæmt bókun af fundi Íþrótta og tómstundaráðs telur aðalstjórn Austra að aðstaða til iðkunnar hinna ýmsu íþróttagreina sé óviðunandi. Tímabært sé að fara í vinnu við að skipuleggja framtíðarsýn íþróttasvæðisins. 

Eins og þegar Ungmennafélagið Valur á Reyðarfirði óskaði eftir að farið yrði í undirbúning á nýju íþróttahúsi á Reyðarfirði þá vill íþrótta- og tómstundanefnd ítreka að endurbætur á Fjarðabyggðarhöllinni eru í forgangi sem stendur.  

Nefndin tekur þó undir að fara það þurfi í framtíðarskipulag íþróttasvæðisins á Eskifirði á næstu misserum. Íþrótta- og tómstundanefnd vísaði málinu til kynningar í eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd.

Í erindi aðalstjórnar Austra kom fram að aðstaða til íþróttaiðkunar hinna ýmsu íþróttagreina á Eskifirði er óviðunandi og hreinlega ekki til staðar í mörgum tilfellum. Golf og sund er einu  íþróttirnar sem hafa aðstöðu í bæjarkjarnanum sem hægt er að kalla ásættanlega. 

Helsta áhyggjuefni aðalstjórnarinnar er aðstaða til knattspyrnuiðkunar. Hún er bundin við illa farið og of lítið íþróttahús, sparkvöll á skólalóð og tyrft svæði við Eskjuvöll sem bæði er í hliðarhalla og mjög óslétt. 

Grasið þar er líka svo viðkvæmt að æfingar hófust ekki fyrr en mjög seint síðastliðin sumur og allt of margar æfingar hefur þurft að færa á sparkvöll eða inn í íþróttahús vegna ástands svæðisins. 

Þar kemur einnig fram að slæm aðsókn hefur verið í knattspyrnuæfingar hjá yngri flokkum síðastliðin ár hjá félaginu og má gera þeir ráð fyrir að lélegir innviðir í bæjarkjarnanum eigi meðal annars þátt í því. 

Nýjar íþróttagreinar og félög hafa síðan átt erfitt með að fá aðstöðu við hæfi og í einhverjum tilfellum hafi þurft að leita til annara bæja innan sveitafélagsins til þess að fá aðstöðu. 

Austri tekur fram að þörfin fyrir bættri aðstöðu er til staðar og til að íþrótta- og tómstundastarf geti dafnað þarf að fara að grípa til aðgerða. 

Ofarlega á óskalista félagsins er nýtt fjölnota íþróttahús á íþróttasvæðinu í dalnum. Þá væri hægt að bjóða upp aðstöðu til æfinga og keppni innanhúss fyrir ýmsar íþróttagreinar og alhliða líkamsrækt.

Félagið heldur því fram að slík aðstaða myndi stuðla að grasrótarstarfi á ólíkum sviðum sem myndi henta mjög breiðum hópi íbúa Fjarðabyggðar. 

 

Aðstæður slæmar á Eskifirði. Mynd úr safni

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar