Aðstoða hefur þurft ökumenn á nokkrum stöðum

Aðstoða hefur þurft ökumenn á nokkrum stöðum í hríðarveðrinu sem nú gengur yfir Austurland og Austfirði.

Björgunarsveitir aðstoðuðu í gærdag fimm ökumenn sem sátu fastir í Langadal á Fjöllum. Um kvöldmatarleytið í gær barst útkall vegna tveggja bíla sem fastir voru sunnan Fáskrúðsfjarðar. Björgunarsveitir hjálpuðu þeim.

Þá var vegurinn frá Egilsstöðum í Hallormsstað skráður ófær klukkan hálf tíu í morgun því bílar eru fastir þar.

Fjallvegir á Austurlandi eru ýmist skráðir lokaðir eða ófærir og víða er ófærð eða þæfingur á Fljótsdalshéraði. Á fjörðum er hált eða snjóþekja og alls staðar skafrenningur. Lögregla og Vegagerð hafa hvatt Austfirðinga til að vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu.

Mynd: Unnar Erlingsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar