Aðeins eldri kindum slátrað í Merki
Aðeins kindum fimm vetra og eldri verður lógað á bænum Merki á Jökuldal í fyrstu þar sem sérstakt afbrigði af riðu greindist nýlega, samkvæmt tillögum yfirdýralæknis. Ítarlega verður fylgst með stofninum og sýni úr kindunum greind.
Þetta kemur fram í tillögunum sem birtar voru á fimmtudag en landbúnaðarráðherra tekur endanlega ákvörðun. Hefðbundin viðbrögð við riðu hafa verið þau að skera niður allt fé á þeim bæ sem hún greinist.
Nýverið greindist NOR 98 afbrigði í heilasýni kindar frá Merki sem slátrað var á Vopnafirði fyrir jól. Það greinist aðallega í eldri kindum og óvíst er hversu smitandi það er, að minnsta kosti síður en venjuleg riða. Afbrigðið hefur þrisvar áður greinst á Íslandi. Í öll þau skipti hefur allt féð verið skorið.
145 kindum slátrað strax
Að þessu sinni verður aðeins kindum fimm ára og eldri og þeim sem skyldastar eru veiku kindinni lógað. Það eru 145 kindur af 540 í Merki. Heilasýni þeirra verða rannsökuð. Finnist riða í þeim verður öllu fé á bænum fargað og hreinsað með hefðbundnum hætti.
Finnist ekkert verður fylgst með eftirlifandi kindum í nokkur ár, í samræm við ákveðna áætlun um mótvægisaðgerðir. Einnig verður fylgst með heilbrigði kinda á næstu bæjum. Gert er ráð fyrir fimm ára eftirliti.
Í haust verða felldar um 70 kindur sem þá verða orðnar fimm ára og sýni úr þeim rannsökuð. Finnist heldur ekkert þar verður heimilt að kaupa líflömb að Merki þá.
Sérstakt áhættumat unnið um NOR 98
Til stendur að gera sérstakar arfgerðargreiningar á fénu í Merki og næstu bæjum. Þá telur yfirdýralæknir nauðsynlegt að gert verði sérstakt áhættumat á NOR 98 afbrigðinu og móta framíðarstefnu um viðbrögð við því.
Í tilkynningu um ákvörðunina frá Matvælastofnun, sem fer með málefni dýraheilbrigðis, segir að Alþjóða dýrasjúkdómastofnunin hafi árið 2009 breytt skilgreiningu sinni á NOR 98 afbrigðinu. Íslendingar vinna meðal annars eftir þeim skilgreiningum sem þar eru mótaðar. Víða erlendis, meðal annars í Noregi, er beitt takmörkuðum niðurskurði. Þar hafa ekki greinst smit í eftirlifandi kindum.